Reglulega berast skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar beiðnir um að gera rannsóknir á starfsstöðum, meðal notenda og starfsfólks, auk óska um aðgang að gögnum velferðarsviðs.

Á velferðarsviði er ríkur vilji til þátttöku í rannsóknarsamfélaginu og álitið mikilvægt að niðurstöður rannsókna sem sviðið tekur þátt í auki þekkingu á velferðarþjónustu og verði henni til framdráttar. Það er jafnframt mikilvægur hluti rannsókna að notendur þjónustu fái tækifæri til að láta skoðanir sínar í ljós. Hins vegar tilheyra sumir notendur þjónustu velferðarsviðs viðkvæmum hópum og mikilvægt er að tekið sé tillit til þess við rannsóknir.

Þrátt fyrir ríkan vilja til þátttöku í rannsóknum heyra þær ekki undir kjarnastarfsemi velferðarsviðs og er því mikilvægt að skýr rammi sé utan um framkvæmd þeirra. 

Afgreiðsla á beiðnum um rannsóknarleyfi

Allar beiðnir um rannsóknir þarf að samþykkja sérstaklega. Þær eru háðar formlegu leyfi og þarf útfyllt umsóknarbeiðni að berast skrifstofu velferðarsviðs til að beiðni verði tekin fyrir. Á velferðarsviði starfar teymi sem tekur fyrir allar rannsóknarbeiðnir. Í því eru Ólafía Dögg Ásgerisdóttir, teymisstjóri í teymi árangurs- og gæðamats, Elín Sigríður Gunnsteinsdóttir, sérfræðingur í teymi árangurs- og gæðamats, Þórhildur Guðrún Egilsdóttir, deildarstjóri skrifstofu öldrunarmála og Fanney Magnadóttir, persónuverndar lögfræðingur velferðarsviðs. Teymið fundar einu sinni í mánuði, að jafnaði þriðja hvern þriðjudag í mánuði eða eins oft og þurfa þykir. Umsókn þarf að berast einni viku fyrir fund.

Fyrirspurnir og erindi til teymisins skal senda á rannsóknarteymi velferðarsviðs: vel.rannsoknir@reykjavik.is

Mikilvægt er að rannsakendur kynni sér nýja persónuverndarlöggjöf, sbr. lög nr. 90/2018, um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

Sjá umsóknareyðublað hér