Fundur nr. 88

Skipulags- og samgönguráð

Ár 2020, miðvikudaginn 11. nóvember kl. 09:04, var haldinn 88. fundur skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn að Borgartúni 12 - 14, 7. hæð Ráðssal. Eftirtaldir fulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundabúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 230/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðarákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Pawel Bartoszek, Alexandra Briem, Hjálmar Sveinsson, Ragna Sigurðardóttir, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Katrín Atladóttir og áheyrnarfulltrúarnir Vigdís Hauksdóttir, Kolbrún Baldursdóttir og Daníel Örn Arnarsson. Eftirtaldir embættismenn og aðrir starfsmenn sátu fundinn: Ólöf Örvarsdóttir, Björn Axelsson, Þorsteinn Rúnar Hermannsson og Jóhanna Guðjónsdóttir.
Fundarritari var Glóey Helgudóttir Finnsdóttir.

Þetta gerðist: 
 1. Framlengd heimild til notkunar fjarfundabúnaðar,          Mál nr. US200205

  Lagt fram bréf borgarstjórnar Reykjavíkur til nefnda og ráða Reykjavíkurborgar þar sem fram kemur að borgarstjórn samþykkti þann 3. nóvember sl. tillögu um framlengingu á heimild til frávika frá skilyrðum sveitarstjórnarlaga vegna neyðarástands í sveitarfélagi. Einnig er lögð fram auglýsing, dags. 3. nóvember 2020, um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra til að tryggja starfhæfi sveitarstjórna og auðvelda ákvörðunartöku við stjórn sveitarfélaga nr. 1076/2020 og auglýsing um leiðbeiningar um notkun fjarfundabúnaðar á fundum sveitarstjórna nr. 1140/2013.

  (E) Samgöngumál

  Fylgigögn

 2. Strætóstoppistöðvar í Reykjavík - úttekt að aðgengi fyrir alla, kynning         Mál nr. US200401

  Kynntar helstu niðurstöður úttektar umhverfis- og skipulagssviðs á ástandi og aðgengi fyrir alla á strætóstoppistöðvum í Reykjavík.

  Bjarni Rúnar Ingvarsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Við þökkum þessa góðu vinnu sem mun nýtast í því að gera strætósamgöngur í Reykjavík aðgengilegar fyrir alla.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Þegar keyrt er um Reykjavík má víða sjá mjög dapurt ástand á strætóstoppistöðvum. Víða er að finna eldgömul skýli á meðan á öðrum stöðum er útlitið mjög „fancy“. Á sumum stöðum er bara einungis einn staur sem stendur á malarbing út í móa. Ekki er að finna heildstæða sýn og útlit á strætóstoppistöðvum og skýlum við þær sem er grundvallarforsenda almenningssamgangna. Þetta birtist eins og það séu mörg fyrirtæki sem bjóða upp á almenningssamgöngur í borginni. Nú er það nýjasta að koma strætóstoppistöðvum út á miðjar götur eins og í Geirsgötu og á hringtorgum eins og á Hagatorgi. Afar áríðandi er að koma þessum málum í lag í úthverfum borgarinnar og setja þau í algeran forgang þegar verkefnið fer í framkvæmd.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Boðað er átak í að bæta aðgengi að strætóstoppistöðvum fyrir fatlað fólk. Betra hefði verið að fá kynninguna fyrir fundinn svo fulltrúar hefðu getað undirbúið sig. Staðan er slæm á meira en 500 stöðum. Eiginlega er, samkvæmt kynningunni, aðgengi hvergi gott. Þessi mál hafa verið í miklum ólestri svo lengi sem er munað, aðgengi er slæmt á flestum strætóstoppistöðvum í Reykjavík. Loksins á að fara í úrbætur og ber því að fagna vissulega. Þarfir fatlaðs fólks í umferðinni hefur ekki verið forgangsmál árum saman. Í raun má segja að strætó hafi ekki verið ætlað fötluðu fólki. Strætó sem almenningssamgöngur hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna eru almenningssamgöngur lítið notaðar af hreyfihömluðu fólki og sjónskertu og blindu fólki. Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma til að gera ástandið viðunandi hvað þá fullnægjandi. Engar hugmyndir eru um hversu langan tíma þetta á eftir að taka.

  Fylgigögn

 3. Aðgerðaáætlun um úrbætur á strætóstoppistöðvum, tillaga         Mál nr. US200410

  Lagt fram bréf skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 9. nóvember 2020, þar sem fram kemur tillaga samgöngustjóra um að unnin verði aðgerðaáætlun um úrbætur á strætóstoppistöðvum á grundvelli úttektar á ástandi þeirra og aðgengi fyrir alla. 

  Tillagan er svohljóðandi:

  Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki að gert verði átak í úrbótum á strætóstoppistöðvum í Reykjavík á grundvelli úttektar á ástandi þeirra og aðgengi fyrir alla. Umhverfis- og skipulagssviði í samráði við aðgengis- og samráðsnefnd í málefnum fatlaðs fólks í Reykjavík og hagsmunaaðila verði falið að vinna aðgerðaáætlun. Tillaga að aðgerðaáætlun úrbóta á strætóstoppistöðvum verði lögð fyrir skipulags- og samgönguráð og aðgengis- og samráðsnefnd í febrúar 2021. Fjármagn í aðgerðaáætlun verði tryggt á fjárfestingaráætlun þegar hún liggur fyrir.
   
  Samþykkt.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Góð greiningarvinna sem unnin var í samráði við ÖBÍ að frumkvæði fulltrúa meirihlutans liggur fyrir og sýnir að víða þarf að stórbæta aðgengi að strætóstoppistöðvum. Nú leggjum við til að verkefnunum verði forgangsraðað til að hægt sé að ráðast sem fyrst í þær úrbætur sem brýnast eru. Strætó á að vera aðgengilegur öllum.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Mikilvægt er að gera úrbætur í aðgengismálum strætóstoppistöðva í borginni, enda eru þau víða óviðunandi. Rétt er að vinna endanlega tímasetta úrbótaáætlun í nánu samráði við Strætó, ekki síst vegna boðaðra breytinga á leiðakerfinu á næstu misserum. Þá ítreka fulltrúar Sjálfstæðisflokks tillögu sína um upphitaða stíga, en heitir snjóbræðslustígar myndu stórbæta aðgengi að gangstígum í hálku og vetrarverði, og þar með stórbæta aðgengi að strætóstoppistöðvum borgarinnar. Er þess óskað að tillagan verði skoðuð við úrbótavinnu í aðgengismálum. Einnig skal hafa í huga að koma fyrir hjólabogum þar sem hægt er.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Boðað er átak í að bæta aðgengi að strætóstoppistöðvum fyrir fatlað fólk. Betra hefði verið að fá kynninguna fyrir fundinn svo fulltrúar hefðu getað undirbúið sig. Staðan er slæm á meira en 500 stöðum. Eiginlega er, samkvæmt kynningunni, aðgengi hvergi gott. Þessi mál hafa verið í miklum ólestri svo lengi sem er munað, aðgengi er slæmt á flestum strætóstoppistöðvum í Reykjavík Loksins á að fara í úrbætur og ber því að fagna vissulega. Þarfir fatlaðs fólks í umferðinni hefur ekki verið forgangsmál árum saman. Í raun má segja að strætó hafi ekki verið ætlað fötluðu fólki. Strætó sem almenningssamgöngur hefur ekki verið raunhæfur kostur fyrir fatlað fólk og þess vegna eru almenningssamgöngur lítið notaðar af hreyfihömluðu fólki og sjónskertu og blindu fólki. Ástandið er það slæmt að reikna má með löngum tíma til að gera ástandið viðunandi hvað þá fullnægjandi. Engar hugmyndir eru um hversu langan tíma þetta á eftir að taka.

  Fylgigögn

 4. Reglur um sérmerkt bílastæði erlendra sendiráða., tillaga, USK2020060117         Mál nr. US200227

  Lögð fram tillaga skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar, dags. 30. október 2020, að endurskoðuðum reglum um sérmerkt bílastæði erlendra sendiráða.

  Samþykkt.

  (A) Skipulagsmál

  Fylgigögn

 5. Afgreiðslufundir skipulagsfulltrúa Reykjavíkur, fundargerð         Mál nr. SN010070

  Lagðar fram fundargerðir embættisafgreiðslufunda skipulagsfulltrúa frá 23. og 30. október 2020.

  Fylgigögn

 6. Suður Mjódd, breyting á deiliskipulag     (04.91)    Mál nr. SN200543

  Lögð er fram tillaga umhverfis- og skipulagssviðs að breytingu á deiliskipulagi Suður Mjóddar er varðar lóðina Álfabakka 4 sem felst í að skipta henni í tvær lóðir sem fengu þá heitin Álfabakki 4 og 6, samkvæmt uppdr. Teiknistofunnar Storð, dags. 5. nóvember 2020. Breytingin er tilkomin vegna vilyrðis um lóðarúthlutun fyrir starfsemi Garðheima í Breiðholti sbr. samþykki Borgarráðs í júní 2020. Einnig er lögð fram umsögn samgöngustjóra og borgarhönnunar dags. 16. október 2020.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Tillaga sem lögð er fram á deiliskipulagi Suður Mjóddar er varðar lóðina Álfabakka 4 sem felst í að skipta henni í tvær lóðir, Álfabakka 4 og 6 er jákvæð en breytingin er tilkomin vegna vilyrðis um lóðarúthlutun fyrir starfsemi Garðheima. Fulltrúi Flokks fólksins hefur verið með tillögur um endurnýjun Mjóddarinnar, endurskoðun og endurgerð, lífga upp á verslunarkjarnann og stórbæta aðgengi og aðkomu. Færa þarf Mjóddina í nútímalegra horf sem hentar hagsmunum borgarbúa í dag. Til dæmis með því að endurgera og snyrta þau grænu svæði sem þarna eru með það að leiðarljósi að laða að þeim fólk. Einnig að hlutast til um uppsetningu hjólastæða fyrir rafhjól og hefðbundin hjól, setja upp hleðslustöðvar fyrir bíla og koma því húsnæði sem er í eigu borgarinnar á svæðinu í notkun. Það er von fulltrúa Flokks fólksins að endurgerð heildarmyndar Mjóddar dragist ekki von úr viti. 

  Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 7. Elliðaárvogur/Ártúnshöfði svæði 1, deiliskipulag, kynning     (04.0)    Mál nr. SN170899

  Kynnt drög að tillögu ASK Arkitekta að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða svæði 1 - Krossamýrartorg.

  Björn Guðbrandsson frá ARKÍS, Þráinn Hauksson frá Landslagi, Páll Gunnlaugsson frá ASK arkitektum og Halldór Eyjólfsson frá Klasa taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Nýtt deiliskipulag fyrir Ártúnshöfða og Elliðaárvoga gefur fyrirheit um fallega og græna byggð sem leggst að landslaginu sem fyrir er. Fyrirhuguð er mannvæn blönduð byggð þar sem áhersla er lögð á vistvæna ferðmáta. Tenging við sjávarsíðuna er mikilvæg og fyrirhuguð sundlaug við sjávarborðið mjög spennandi. Meirihlutinn fagnar þeirri framúrstefnulegu og grænu heildarmynd sem sett er fram og þeirri umbreytingu sem framundan er.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Gríðarleg og stórkarlaleg uppbygging er í kortunum í Elliðaárvogi og Ártúnshöfða og áætlað er að borgarlína eigi að liggja í gegnum Breiðhöfða í Reykjavík þar sem fyrir eru fjöldamörg fyrirtæki og þá einkum bílasölur. Nú er verið að kynna deiliskipulag fyrir þetta svæði og má öllum vera ljóst að öllum fyrirtækjum á svæðinu verður úthýst. Sú staðreynd er nákvæmt dæmi um að borgarstjóra og meirihlutanum er nákvæmlega sama um rekstraraðila í borginni. Það er verið að flæma fjöldamörg fyrirtæki í önnur bæjarfélög að undanskildum mengandi rekstri á Esjumelum sem er í eigu borgarinnar. Eina skipulagða atvinnusvæði Reykjavíkur er þar og sá rekstur sem nú er á Breiðhöfða gengur ekki á Esjumelum vegna fjarlægðar við markaði. Í engu hefur verið sinnt að deiliskipuleggja atvinnulóðir á Úlfarsfellssvæðinu, þess hluta sem nefnist Hallar og Hamrahlíðarlönd eins og samþykkt var í aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. Sú atvinnustarfsemi sem nú er á Breiðhöfðanum hefði passað mjög vel á þeim atvinnulóðum og væri meira miðsvæðis en á Esjumelum.

 8. Elliðaárvogur/Ártúnshöfði svæði 2, deiliskipulag, kynning     (04.0)    Mál nr. SN170900

  Kynnt drög að tillögu Arkís arkitekta og Landslags að deiliskipulagi fyrir Elliðaárvog/Ártúnshöfða svæði 2 - Sævarhöfði.

  Björn Guðbrandsson frá ARKÍS, Þráinn Hauksson frá Landslagi, Páll Gunnlaugsson frá ASK arkitektum og Halldór Eyjólfsson frá Klasa taka sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Nýtt deiliskipulag fyrir Ártúnshöfða og Elliðaárvoga gefur fyrirheit um fallega og græna byggð sem leggst að landslaginu sem fyrir er. Fyrirhuguð er mannvæn blönduð byggð þar sem áhersla er lögð á vistvæna ferðamáta. Tenging við sjávarsíðuna er mikilvæg og fyrirhuguð sundlaug við sjávarborðið mjög spennandi. Meirihlutinn fagnar þeirri framúrstefnulegu og grænu heildarmynd sem sett er fram og þeirri umbreytingu sem fram undan er.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokks leggja áherslu á að Reykjavíkurborg finni sameinuðum Tækniskóla viðeigandi lóð við Ártúnshöfðann. Skipulagsfulltrúi skilaði umsögn um staðarval fyrir skólann þann 7. nóvember 2019 og var það álit fulltrúans að staðsetning sameinaðs Tækniskóla á Ártúnshöfða myndi skapa spennandi tækifæri fyrir heildarskipulag og framtíðarþróun Reykjavíkurborgar. Staðsetningin væri í góðu samræmi við lykilstefnur AR2040, myndi fjölga atvinnutækifærum og menntastofnunum austarlega í borginni og glæða nýja hverfið auknu lífi. Það er mikilvægt að Reykjavíkurborg setji aukinn kraft í staðarvalið og tryggi að skólinn hverfi ekki úr borginni, til annarra sveitarfélaga. Hér er til mikils að vinna.

  Áheyrnarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun: 

  Gríðarleg og stórkarlaleg uppbygging er í kortunum í Elliðaárvogi og Ártúnshöfða og áætlað er að borgarlína eigi að liggja í gegnum Breiðhöfða í Reykjavík þar sem fyrir eru fjöldamörg fyrirtæki og þá einkum bílasölur. Nú er verið að kynna deiliskipulag fyrir þetta svæði og má öllum vera ljóst að öllum fyrirtækjum á svæðinu verður úthýst. Sú staðreynd er nákvæmt dæmi um að borgarstjóra og meirihlutanum er nákvæmlega sama um rekstraraðila í borginni. Það er verið að flæma fjöldamörg fyrirtæki í önnur bæjarfélög að undanskildum mengandi rekstri á Esjumelum sem er í eigu borgarinnar. Eina skipulagða atvinnusvæði Reykjavíkur er þar og sá rekstur sem nú er á Breiðhöfða gengur ekki á Esjumelum vegna fjarlægðar við markaði. Í engu hefur verið sinnt að deiliskipuleggja atvinnulóðir á Úlfarsfellssvæðinu, þess hluta sem nefnist Hallar og Hamrahlíðarlönd eins og samþykkt var í aðalskipulagi Reykjavíkur 2001-2024. Sú atvinnustarfsemi sem nú er á Breiðhöfðanum hefði passað mjög vel á þeim atvinnulóðum og væri meira miðsvæðis en á Esjumelum.

 9. Jöfursbás 5 og 7, breyting á deiliskipulagi         Mál nr. SN200658
  Helgi Mar Hallgrímsson, Laugateigur 46, 105 Reykjavík
  Jöfursbás 7 ehf., Katrínartúni 2, 105 Reykjavík

  Lögð fram umsókn Helga Mars Hallgrímssonar dags. 21. október 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Gufuness, áfangi 1, vegna lóðanna nr. 5 og 7 við Jöfursbás. Í breytingunni felst að lóðir stækka, byggingarmagn eykst, hámarksfjöldi íbúða verður skilgreindur, stærðir svalaganga og lágmarks salarhæð verði ekki takmörkuð umfram kvaðir byggingarreglugerðar, fallið verður frá skilmálum um að efstu hæðir þurfi að vera inndregnar og þess í stað verður heimilt að hafa húsin stölluð og að heimilt verði að svalir og útskot nái 2 m út fyrir byggingarreit nema að götu, samkvæmt uppdr. Arkþing/Nordic ehf. dags. 19. október 2020. Einnig er lagt fram samþykki lóðarhafa aðliggjandi lóða dags. 18. og 30. september 2020. 

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun: 

  Mikilvægt er að gætt sé jafnræðis þegar verið er að gera breytingar á skilmálum uppbyggingaraðila. Þetta á ekki síst við þá aðila sem hafa verið valdir að undangengnu vali eða fegurðarsamkeppni eins og dæmi eru um. Ekki eru í gildi ákveðnar reglur um breytingar á skilmálum eftir á, en dæmi eru um aukið byggingarmagn, stækkun lóða og ívilnanir varðandi kröfur og skilmála gagnvart einstökum aðilum. Réttara er að rýmka almennar reglur frekar en að koma með ívilnanir til einstakra aðila eftir á. 

  Björn Ingi Edvardsson verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 10. Rökkvatjörn 10-16, breyting á deiliskipulagi     (05.052.3)    Mál nr. SN200620
  Eiríkur og Einar Valur ehf, Norðurbakka 17b, 220 Hafnarfjörður
  Einar Ólafsson, Hvassaleiti 39, 103 Reykjavík

  Lögð fram umsókn Einars Ólafssonar dags. 7. október 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðarinnar nr. 10-16 við Rökkvatjörn. Í breytingunni felst að fækka einingum úr 4 einingum í 3 einingar og halda sama byggingarmagni og lóðarstærð, fækkun bílastæða um tvö á lóðinni úr 8 bílastæðum í 6 bílastæði, samkvæmt uppdr. Arkiteó, 3. nóvember 2020

  Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

  Hrafnhildur Sverrisdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 11. Kvosin, Landsímareitur, breyting á deiliskipulagi     (01.140.4)    Mál nr. SN200671
  THG Arkitektar ehf., Faxafeni 9, 108 Reykjavík

  Lögð fram umsókn THG Arkitekta ehf. dags. 28. október 2020 varðandi breytingu á deiliskipulagi Kvosarinnar, Landsímareits. Í breytingunni felst að heimildum fyrir gerð kjallara og nýtingu efri hæða aðlægt Vallarstræti er breytt að hluta til, einnig er bætt við byggingarreit fyrir sólstofu á 5. hæð samkvæmt uppdr. THG Arkitekta ehf. dags. 20. október 2020.

  Samþykkt að auglýsa framlagða tillögu, skv. 1. mgr. 41. gr. sbr. 1. mgr. 43.gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
  Vísað til borgarráðs.

  Lilja Grétarsdóttir verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  Fylgigögn

 12. Brautarholt 18 og 20, lóðabreyting     (01.242.2)    Mál nr. SN200690

  Lagður fram lóðauppdráttur umhverfis- og skipulagssviðs dags. 5. nóvember 2020 og breytingarblað umhverfis- og skipulagssviðs dags. 5. nóvember 2020 þar sem lagt er til að lóðirnar Brautarholt 18 og 20 verði minnkaðar og sameinaðar.

  Samþykkt að falla frá kynningu þar sem breyting á deiliskipulagi varðar ekki hagsmuni annarra en umsækjanda með vísan til 2. ml. 3. mgr. 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Samþykkt með vísan til a liðar 1. gr. í viðauka 1.1 um fullnaðarafgreiðslur nú skipulags- og samgönguráðs án staðfestingar borgarráðs.

  Ingvar Jón Bates Gíslason verkefnastjóri tekur sæti á fundinum undir þessum lið með fjarfundarbúnaði.

  (B) Byggingarmál

  Fylgigögn

 13. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa, fundargerð         Mál nr. BN045423

  Fylgiskjal með fundargerð þessari er fundargerð afgreiðslufundar byggingarfulltrúa nr. 1089 frá 3. nóvember 2020.

  Fylgigögn

 14. Tunguvegur 12, bílskúr á lóð     (18.223.03)    Mál nr. BN057999
  Þorgrímur Þráinsson, Tunguvegur 12, 108 Reykjavík

  Að lokinni grenndarkynningu er lagt fram að nýju erindi þar sem sótt er um leyfi til þess að byggja steinsteyptan bílskúr, mhl.02, á lóð nr. 12 við Tunguveg, samkvæmt uppdr. Önnu Leoniak dags. 26. júlí 2020 og 26. ágúst 2020. Erindi var grenndarkynnt frá 21. september 2020 til og með 19. október 2020. Eftirtaldir sendu inn athugasemdir: Jón Viðar Gunnarsson og Ellý Hauksdóttir Hauth dags. 25. september 2020, Björg Kristín Sigþórsdóttir 19. október 2020 og Helgi Kristján Pálsson dags. 19. október 2020. 
  Erindi fylgir samþykki meðlóðarhafa dags. 15. ágúst 2020, mæliblað 1.822.3 síðast útgefið 9. maí 2011 og hæðablað útgefið í ágúst 2001. Einnig er lögð fram umsögn skipulagsfulltrúa, dags. 30. október 2020.

  Samþykkt með vísan til umsagnar skipulagsfulltrúa dags. 30. október 2020.
  Vísað til fullnaðarafgreiðslu byggingarfulltrúa.

  (D) Ýmis mál

  Fylgigögn

 15. Sólvallagata 23, kæra 106/2020     (01.162.0)    Mál nr. SN200679
  Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 30. október 2020 ásamt kæru dags. 28. október 2020 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúa Reykjavíkur um að samþykkja byggingu bílskúrs á suðausturhluta lóðarinnar að Sólvallagötu 23.

 16. Hverfisgata 73, kæra 108/2020     (01.153.2)    Mál nr. SN200688
  Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 5. nóvember 2020 ásamt kæru dags. 5. nóvember 2020 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík um að veita byggingarleyfi fyrir Hverfisgötu 73, dags. þann 12. október 2020.

 17. Gufuneshöfði, kæra 110/2020     (02.2)    Mál nr. SN200691
  Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 6. nóvember 2020 ásamt kæru dags. 6. nóvember 2020 þar sem kærð er m.a. útgáfa á byggingarleyfi fyrir mastur að Gufuneshöfða og deiliskipulagsbreyting frá 2019 þar af lútandi.

 18. Kjalarnes, Esjumelar, kæra 96/2020, umsögn     (34.2)    Mál nr. SN200634
  Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 9. október 2020 ásamt kæru dags. 9. október 2020 þar sem kærð er ákvörðun borgarráðs frá 2. júlí 2020 um að samþykkja breytingu á deiliskipulagi Esjumela á Kjalarnesi, sem öðlaðist gildi 11. september 2020. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 3. nóvember 2020.

 19. Skólavörðustígur 31, kæra nr. 90/2020, umsögn, úrskurður     (01.182.2)    Mál nr. SN200614
  Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 5. október 2020 ásamt kæru dags. 5. október 2020 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingarleyfisumsókn um viðbyggingu ásamt að gera inndregnar svalir á eldri hluta í húsi á lóð nr. 31 við Skólavörðustíg. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 8. október 2020. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 5. nóvember 2020. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. september 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta hússins á lóðinni nr. 31 við Skólavörðustíg.

 20. Skólavörðustígur 31, kæra nr. 91/2020, umsögn, úrskurður     (01.182.2)    Mál nr. SN200615
  Úrskurðarnefnd umhverfis/auðlin, Borgartúni 21, 105 Reykjavík

  Lagt fram erindi úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála dags. 5. október 2020 ásamt kæru dags. 4. október 2020 þar sem kærð er ákvörðun byggingarfulltrúans í Reykjavík að samþykkja byggingarleyfisumsókn um viðbyggingu á eldri hluta í húsi á lóð nr. 31 við Skólavörðustíg. Einnig er lögð fram umsögn skrifstofu sviðsstjóra dags. 8. október 2020. Jafnframt er lagður fram úrskurður úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála frá 5. nóvember 2020. Úrskurðarorð: Hafnað er kröfu kærenda um ógildingu ákvörðunar byggingarfulltrúans í Reykjavík frá 8. september 2020 um að samþykkja umsókn um leyfi til að reisa viðbyggingu ásamt því að gera inndregnar svalir á eldri hluta hússins á lóðinni nr. 31 við Skólavörðustíg.

 21. Reitur 1.172.0 Brynjureitur, breyting á deiliskipulagi     (01.172.0)    Mál nr. SN200573

  Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 30. október 2020 vegna samþykktar borgarstjórnar frá 20. október 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.0, Brynjureits.

  Fylgigögn

 22. Reitur 1.172.1 Frakkastígsreitur, breyting á deiliskipulagi     (01.172.1)    Mál nr. SN200572

  Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 30. október 2020 vegna samþykktar borgarstjórnar frá 20. október 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.1, Frakkastígsreits.

  Fylgigögn

 23. Laugavegur sem göngugata, nýtt deiliskipulag     (01.1)    Mál nr. SN200577

  Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 30. október 2020 vegna samþykktar borgarstjórnar frá 20. október 2020 á auglýsingu á tillögu að deiliskipulagi fyrir 2. áfanga Laugavegar sem göngugötu.

  Fylgigögn

 24. Reitur 1.172.2, breyting á deiliskipulagi     (01.172.2)    Mál nr. SN200571

  Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 30. október 2020 vegna samþykktar borgarstjórnar frá 20. október 2020 á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi reits 1.172.2.

  Fylgigögn

 25. Rökkvatjörn 2, breyting á deiliskipulagi     (05.052.5)    Mál nr. SN200532
  Urðarsel ehf., Logafold 35, 112 Reykjavík
  Arkþing - Nordic ehf., Bolholti 8, 105 Reykjavík

  Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 29. október 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á auglýsingu á tillögu að breytingu á deiliskipulagi Úlfarsárdals vegna lóðar nr. 2 við Rökkvatjörn.

  Fylgigögn

 26. Línbergsreitur, Grandagarði, breyting á deiliskipulagi         Mál nr. SN190526
  Línberg ehf., Tjarnargötu 28, 101 Reykjavík
  ASK Arkitektar ehf., Geirsgötu 9, 101 Reykjavík

  Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 29. október 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að breytingu á deiliskipulagi fyrir Örfirisey-Vesturhöfn, Línbergsreitur, vegna lóðanna nr. 16-32 við Fiskislóð og nr. 39-93 við Grandagarð.

  Fylgigögn

 27. Kjalarnes, Nesvík, deiliskipulag         Mál nr. SN190734
  Plúsarkitektar ehf, Fiskislóð 31, 101 Reykjavík
  Íslenskar fasteignir ehf., Laugavegi 182, 105 Reykjavík

  Lagt fram bréf borgarstjóra dags. 29. október 2020 vegna samþykktar borgarráðs s.d. á tillögu að deiliskipulagi fyrir Nesvík á Kjalarnesi.

  Fylgigögn

 28. Tillaga áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um átak gegn hættulegu húsnæði í borginni, umsagnir - USK2020080048, R20080089         Mál nr. US200234

  Lögð fram umsögn mannréttinda- og lýðræðisskrifstofu ásamt minnisblaði, dags. 5. október 2020 og umsögn fjölmenningarráðs, dags. 15. október 2020.

  Tillögunni er vísað frá með fjórum greiddum atkvæðum fulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá.

  Fulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Pírata leggja fram svohljóðandi bókun:

  Rannsókn húsnæðis og mannvirkjastofnunar á brunanum á Bræðraborgarstíg stendur yfir og felur sú rannsókn m.a. annars í sér yfirferð á núgildandi regluverki. Í frumvarpi að breytingu á húsaleigulögum sem lagt hefur verið fram á Alþingi koma fram ýmsar tillögur sem gagnast gætu við víðtækara eftirlit með húsaleigumarkaðnum. Þá er ljóst að endurskoða gæti þurft heimildir byggingarfulltrúa og heilbrigðiseftirlits. Ekki þykir rétt að samþykkja tillöguna en Reykjavíkurborg mun starfa með Alþingi og öðrum stjórnvöldum með það að markmiði að bæta lagaumhverfið. Jafnframt þyrfti að líta til umsagnar fjölmenningarráðs og koma á framfæri upplýsingum um brunavarnir og réttindi leigjenda til Reykvíkinga með ólík móðurmál.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Flokkur fólksins lagði til að Reykjavíkurborg ráðist í átak gegn hættulegu húsnæði í borginni með áherslu á að efla brunavarnir í eldri húsum borgarinnar og aukið eftirlit með ósamþykktu íbúðarhúsnæði. Tillögunni hefur verið vísað frá. Í svörum hefur komið fram að lagaheimildir skorti til að borgin geti farið í slíkt átak. Það er mjög alvarlegt. Í umsögn sem birt hefur verið með málinu er sökinni að mestu komið á löggjafann og húseiganda, en eftirlitskerfi borgarinnar er sagt máttlaust. Fulltrúi Flokks fólksins spyr þá hvort borgaryfirvöld hyggist ekki biðja um betri lagaheimildir? Að eftirlitið sé alfarið á könnu ríkisins er varla raunhæft. Svona mál vinnast best hjá þeim sem næst standa og fulltrúi Flokks fólksins telur að borgin geti ekki varpað frá sér ábyrgðinni eins og mál af þessu tagi komi borgaryfirvöldum ekki við. Að borginni snýr ákveðinn veruleiki, vitneskja og meðvitund um að því erfiðari sem húsnæðismarkaðurinn er fátæku fólki aukast líkur þess að fólk finni sér skjól í ósamþykktu, hættulegu húsnæði. Vonandi munu borgaryfirvöld ekki bara sitja með hendur í skauti og vona að það verði ekki annar skaðlegur bruni í eldra húsnæði borgarinnar.

  Fylgigögn

 29. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um stefnu Strætó varðandi lausagang strætisvagna á biðtíma, umsögn         Mál nr. US200254

  Lögð fram umsögn Strætó bs. dags. 13. október 2020.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins spurði um stefnu Strætó hvað viðkemur lausagangi strætisvagna á biðtíma. Svarið við fyrirspurninni vekur nokkrar áhyggjur en í því kemur fram að það sé í raun í hendi bílstjórans, hans ákvörðun, hvort hann drepi á vélinni á biðtíma þ.e. í kyrrstöðu. Kjósi bílstjóri að drepa ekki á vélinni á biðtíma, þá hvað? Bílar í gangi menga mjög mikið. Vissulega er gott að vita að nýjustu vagnar Strætó eru umhverfisvænir raf- og metanvagnar. Oft er ekki drepið á vögnunum á biðtíma. Vagnar eru samkvæmt sjónarvottum oft í gangi t.d. á skiptistöðvum eins og Spöng og Mjódd og 5 mínútur í lausagangi er verulega langur tími. En gott er að vita að Strætó hefur stefnu m.a. sem kveður á um reglur í þessu sambandi en það þarf kannski að fylgja henni betur eftir, hreinlega að gera athuganir á þessu reglulega. Strætó hefur lagt í kostnað vegna breytinga á Euro 6 vögnum þannig að vél bílsins stöðvast sjálfkrafa eftir 5 mínútna lausagang. Þarf ekki að ganga lengra í slíkum aðgerðum? Strætó á því miður langt í land hvað varðar eldsneytissparnað og mengunarvarnir. Það er einnig nokkuð ljóst að það megi ná fram verulegum sparnaði í eldsneytisnotkun með betri og markvissari akstri

  Fylgigögn

 30. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins, um gæðaeftirlit með strætisvögnum, umsögn         Mál nr. US200250

  Lögð fram umsögn Strætó bs. dags. 13. október 2020.

  Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

  Fulltrúi Flokks fólksins spurði um hvernig gæðaeftirlit með strætisvögnum er háttað. Í svari frá Strætó er ekki betur séð en gott gæðaeftirlit sé með strætisvögnum, í það minnsta eru skýrar reglur um hvernig eftirliti skuli háttað. Það er ábyrgð vagnstjóra að skoða sinn vagn innan og utan og skrá það sem þarf að laga. En hver hefur eftirlit með vagnstjórunum, að þeir sinni þessu hlutverki sínu vel og vandlega? Sennilega má ætla að almennt séð séu strætisvögnum vel við haldið. Nokkrar ábendingar berast þó af og til um að betra viðhalds sé þörf, sem dæmi um að einstaka vagnar aki stundum um eineygðir.

  Fylgigögn

 31. Fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Sósíalistaflokks, um greiðslur í gegnum app EasyPark sem áður var Leggja.is - USK2020110008, R20100407         Mál nr. US200405

  Lögð er fram fyrirspurn áheyrnarfulltrúa Flokks fólksins sem barst borgarráði þann 29. október 2020 og var vísað til meðferðar skipulags- og samgönguráðs.

  Fyrirspurnin er svohljóðandi:

  Appið Leggja er orðinn hluti af EasyPark sem er mest notaða bílastæðaapp í Evrópu og er núna komið til Íslands. Hvert fara tekjurnar sem koma inn í gegnum appið vegna greiddra bílastæðagjalda innan Reykjavíkur? Fara þau í bílastæðasjóð eða til fyrirtækis erlendis? Eða skiptist gjaldið á milli fyrirtækisins og Bílastæðasjóðs og hvernig þá?

  Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, Bílastæðasjóðs.

  Fylgigögn

 32. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200385

  Tillaga Flokks fólksins um að hætt verði að birta upplýsingar (bæði nöfn og kenntölur) þeirra sem senda inn athugasemdir, kvartanir eða kærur í dagskrá umhverfis- og skipulagsráðs eða fundargerðir. Fólk sem sendir inn kvörtun/kærur á rétt á því að nöfn þeirra verði trúnaður. Nægjanlegt er að sviðið hafi þessar upplýsingar. Fulltrúa Flokks fólksins finnst þessi birting hvorki þörf né sanngjörn enda ekki víst að birtingin sé með vitund þessara einstaklinga. Fulltrúi fólksins sendi fyrirspurn um málið til Persónuverndar sem hljóðaði svona: Er leyfilegt að birta nöfn þeirra sem kvarta eða senda inn ábendingar í dagskrá skipulags- og samgönguráðs (birta þær opinberlega)? Eftirfarandi svar barst: Persónuvernd bendir á að þann 25. september sl. úrskurðaði Persónuvernd í máli er varðaði birtingu persónuupplýsinga í tengslum við deiliskipulagstillögu. Þar var talið að heimilt hefði verið að birta nafn en ekki kennitölu vegna athugasemda við deiliskipulagstillögu. Lagt var fyrir Reykjavíkurborg að afmá kennitölu kvartanda úr athugasemd hans við deiliskipulagstillögu sem birt er á vefsíðu borgarinnar. Þá var lagt fyrir Reykjavíkurborg að veita framvegis fræðslu í samræmi við 13. gr. reglugerðar (ESB) 2016/679, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 8. gr. og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 90/2018, vegna fyrirhugaðrar birtingar athugasemda við skipulagstillögur. 

  Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, Skrifstofu sviðsstjóra.

 33. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200407

  Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir upplýsingum um fyrirhugaða mön við Reykjanesbraut/Blesugróf og þá hvernig það mál standi? Íbúar hafa verið að reyna að ná til skipulagsyfirvalda/sviðs til að fá þessar upplýsingar en ekki haft erindi sem erfiði. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins skilur þá er talsverður hávaði í hverfinu vegna umferðar á Reykjanesbraut og Stekkjarbakka. Eftir því sem næst er komist átti þetta verkefni að vera í forgangi. Spurt er um stöðu verkefnisins og samhliða hvetur fulltrúi Flokks fólksins skrifstofu umhverfis- og skipulagsmála, skipulags- og samgöngustjóra að fara yfir póstinn sinn og svara fyrirspurnum og erindum frá borgarbúum sem kunna að hafa gleymst. Því betri viðbrögð og svör sem borgarbúar fá við fyrirspurnum því sjaldnar er þörf á að leita til borgarfulltrúa eftir hjálp við að fá svör. Það eru jú embættismennirnir og starfsfólkið sem hafa svörin en ekki borgarfulltrúar minnihlutans. Minnt er einnig í þessu sambandi á tillögu Flokks fólksins um að bæta vinnubrögð almennt séð við svörun erinda frá borgarbúum

  Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 34. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200408

  Flokkur fólksins leggur til að skipulagssvið borgarinnar útfæri leiðir/umgengnireglur í samráði við rafskutlaleigur til að fá leigjendur til að ganga frá hjólum þar sem þau skapa ekki hættu. Hjólunum er stundum illa lagt, t. d. á miðja gangstétt þannig að fatlaður einstaklingur í hjólastól eða sjónskertur vegfarandi ýmist kemst ekki fram hjá eða gengur á hjólið. Fólk með barnakerrur lendir einnig í vandræðum með að komast ferðar sinnar. Um 1.100 rafskutlur standa borgarbúum til leigu frá fjórum fyrirtækjum. Fjölga á skutlunum enn meir. Sá ferðamáti sem hér um ræðir hefur rutt sér til rúms í borginni á stuttum tíma. Þetta er góður ferðamáti en enn vantar augljóslega reglur um umgengni. Fylgja þarf lögum í þessu sambandi. Í lögum er skýrt tekið fram að ekki má skilja við hjól þar sem það getur valdið hættu eða óþarfa óþægindum fyrir aðra í umferðinni. Skýrir rammar þurfa að liggja að baki þessum samgöngutækjum sem öðrum. Hætta er á slysum ef ekkert er að gert og fulltrúi Flokks fólksins hvetur skipulagssvið til að bíða ekki eftir þeim áður en tekið er til hendinni við að leysa þetta vandamál.

  Vísað til umsagnar umhverfis - og skipulagssviðs, Skrifstofu samgöngustjóra og borgarhönnunar.

 35. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200412

  Óskað er eftir að fá allar breytingar á skilmálum þeirra verkefna sem heyra undir Hagkvæmt húsnæði: /hagkvaemt-husnaedi Sérstaklega er óskað eftir að fá lista yfir ívilnandi breytingar á byggingarmagni, kröfum um húsnæði, bílastæði, sorphirðu og fjarlægðum þar að lútandi, aukningu byggingarmagns eða öðrum breytingum frá því að viðkomandi aðilar fengu vilyrði fyrir lóðum. 

  Frestað.

 36. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurnir,          Mál nr. US200413

  Reykjavíkurborg er með áætlanir um Vetrargarð fyrir íbúa Reykjavíkur og nágrennis, við skíðabrekkuna í Jafnaseli. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir svörum við eftirfarandi fyrirspurnum: 1. Vatnsendahvarf þar sem nýr Vetrargarður á að rísa er einn besti útsýnisstaður borgarinnar og býður upp á möguleika á heillandi útsýnishúsi eða útsýnispalli ásamt viðeigandi þjónustu. Hversu mikið telja skipulagsyfirvöld að hraðbraut, sem kljúfa á Vatnsendahvarf að endilöngu, dragi úr framtíðarmöguleikum Vetrargarðsins og svæðisins í heild? 2. Hver munu áhrif hraðbrautar svo nálægt fyrirhuguðum Vetrargarði verða? 3. Hvernig verða mengunarmál leyst þegar stór gatnamót verða alveg upp við leik og útivistarsvæði sem er að mjög miklu leyti notað af börnum? 4. Umhverfismat fyrir 3. áfanga Arnarnarnesvegar er eldra en 10 ára gamalt, eða frá 2002, og í ljósi þess er ekki enn útséð hvort Skipulagsstofnun fari fram á nýtt mat. Stendur til að fresta útboði þar til niðurstaða um það liggur fyrir? 5. Tenging við Breiðholtsbraut er nú áætluð með ljósastýrðum gatnamótum en ekki mislægum eins og upphaflega umhverfismatið gerði ráð fyrir. Þessi gatnamót munu tefja verulega umferð inn og úr Breiðholti, sem liggur um Breiðholtsbraut. Hvernig hyggjast skipulagsyfirvöld bregðast við því? 6. Vatnsendahvarfið, sem þessi 3. áfangi Arnarnesvegar á að liggja um, er mun grónara en fyrir 18 árum og virði þess sem útivistarsvæðis meira. Þar vex fjölbreyttur gróður og ýmsar tegundir farfugla, svo sem lóur, hrossagaukar og spóar verpa þar á hverju ári. Hvernig hyggjast skipulagsyfirvöld standa vörð um náttúru- og dýralífið á meðan á framkvæmdum stendur og í kjölfar þeirra?

  Frestað.

 37. Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi tillögu,          Mál nr. US200414

  Lagt er til að skipulags- og samgönguráð samþykki að farið verði í heildarendurskoðun skipulags í Mjódd. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að vinna drög að nýju skipulagi sem taki mið af bættri nýtingu lóða á þessu mikilvæga miðsvæði á höfuðborgarsvæðinu. Í vinnu að bættu skipulagi gefst tækifæri til að vinna að heildarskipulagi og góðum samgöngum á svæðinu ásamt því að efla þennan þjónustukjarna og styrkja þannig Breiðholtið til mikilla muna. Verkefnið verði unnið í samráði við núverandi lóðarhafa og rekstaraðila á skipulagsvæðinu. Stefnt er að því að drög að nýju skipulagi verði lagt fyrir skipulags- og samgönguráð mars 2021.

  Frestað.

 38. Áheyrnarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi fyrirspurn,          Mál nr. US200415

  Nú eru mál Laugavegur sem göngugata, nýtt deiliskipulag og nærliggjandi reitir lokið í borgarstjórn. Fulltrúi Flokks fólksins óskar eftir að spyrja hvort borgaryfirvöld hyggjast bæta þeim rekstraraðilum sem urðu fyrir rekstrarlegu áfalli í kjölfar lokunar bílaumferðar á svæðinu? Minnt er á að yfirvöld ætluðu að opna aftur götur fyrir umferð eftir sumarlokun en það loforð var svikið. Allt þetta mál hefur verið erfitt og greiddi fulltrúi Flokks fólksins atkvæði gegn því, ekki vegna þess að hann er á móti göngugötum sem slíkum heldur vegna þeirrar aðferðafræði sem skipulagsyfirvöld í borginni hefur notað við að keyra áfram deiliskipulagið þrátt fyrir mótmæli stórs hóps hagaðila og einnig margra borgarbúa. Skipulagsyfirvöldum hefði verið í lófa lagið að hafa samstarf við hagaðila varðandi hugmyndir um göngugötur, lokun umferðar og hvort, hvenær og með hvaða hætti þessar breytingar gætu orðið þannig að þær myndu ekki skaða rekstur verslana á svæðinu eins og raun bar vitni. Bjóða hefði átt hagaðilum að vera þátttakendum í ákvarðanatöku og ferlinu frá byrjun enda miklir hagsmunir í húfi. Það sem eftir situr er galtómur miðbær með tugi lausra rýma. Aðeins brot af lausum rýmum má rekja til COVID-19.

  Frestað.

  -    Kl. 12:32 víkur Vigdís Hauksdóttir af fundi.