B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2020, þriðjudaginn 1. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14:06. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar: Kristín Soffía Jónsdóttir, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Líf Magneudóttir, Heiða Björg Hilmisdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Sabine Leskopf, Eyþór Laxdal Arnalds, Hildur Björnsdóttir, Marta Guðjónsdóttir, Sanna Magdalena Mörtudóttir, Vigdís Hauksdóttir og Kolbrún Baldursdóttir. Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 780/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Skúli Helgason, Hjálmar Sveinsson, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Ellen Jacqueline Calmon, Valgerður Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson, Katrín Atladóttir, Örn Þórðarson og Björn Gíslason.
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Lögð fram svohljóðandi tillaga forsætisnefndar: 

Lagt er til að borgarstjórn samþykki tímabundin frávik frá skilyrðum ákvæða 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnarlaga með vísan til auglýsingar nr. 780/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. Til og með 3. nóvember 2020 verður heimilt að nota fjarfundarbúnað á fundum borgarstjórnar, borgarráðs, fagráða samkvæmt B-lið 63. gr. samþykktar um stjórn Reykjavíkurborgar og annarra nefnda samkvæmt B-lið 64. gr. samþykktarinnar, eftir því sem við á. Notkun fjarfundabúnaðar skal að jafnaði vera í samræmi við ákvæði í leiðbeiningum um notkun fjarfundarbúnaðar á fundum sveitarstjórna nr. 1140/2013 og verklagsreglum um fjarfundi, þó þannig að meirihluti fundarmanna þarf ekki að vera á boðuðum fundarstað eins og fram kemur í 5. gr. leiðbeininganna. Einnig verður fundargerð borgarstjórnar áfram staðfest og yfirfarin af forseta borgarstjórnar og skrifurum, í samræmi við ákvæði 8. gr. leiðbeininganna. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R18060129
Samþykkt.

2.    Fram fara óundirbúnar fyrirspurnir. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins beina fyrirspurn til borgarstjóra um samgöngusáttmála.
Borgarfulltrúar Samfylkingar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna beina fyrirspurn til Eyþórs Laxdal Arnalds, borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, um eftirlitsmyndavélar.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands beinir fyrirspurn til borgarstjóra um biðlista eftir félagslegu húsnæði.
Borgarfulltrúi Miðflokksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um Reykjavíkurflugvöll.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um skólamál og/eða velferðarmál. R20080128

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarstjóra sbr. samþykkt í 21. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst 2020:
    
Lagt er til að borgarráð samþykki að Reykjavíkurborg taki þátt í að stofna opinbert hlutafélag, Betri samgöngur ohf., um uppbyggingu samgönguinnviða með aðild ríkissjóðs, Garðabæjar, Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kópavogsbæjar, Mosfellsbæjar, og Seltjarnarnesbæjar, sbr. heimild í 1. gr. laga nr. 81/2020 um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, og leggi félaginu til hlutafé við stofnun þess með áskrift hluta að nafnvirði kr. 563.390 í samræmi við fyrirhugaðan eignarhlut Reykjavíkurborgar í félaginu eða 14,085%. Greiðsla hlutafjár verður með þeim hætti að Reykjavíkurborg innir af hendi kr. 563.390 með eingreiðslu í reiðufé til félagsins samhliða stofnun þess. Þá er til samræmis við framangreint lagt til að borgarráð samþykki stofnsamning og hluthafasamkomulag fyrir Betri samgöngur ohf., sbr. hjálögð skjöl, og feli borgarstjóra að undirrita þessi skjöl fyrir hönd Reykjavíkurborgar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20080082
Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tveimur atkvæðum borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Stofnun félagsins er lykilaðgerð í framgangi samgöngusáttmála. Eins og fram hefur komið þá er samgöngusáttmáli samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Heildarfjármögnun samgönguframkvæmda á svæðinu á tímabilinu er 120 milljarðar. Á tímabilinu verða 52,2 milljarðar lagðir í stofnvegi, 49,6 milljarðar í innviði borgarlínu og almenningssamgöngur, 8,2 milljarðar í göngu- og hjólastíga, göngubrýr og undirgöng og 7,2 milljarðar í bætta umferðarstýringu og sértækar öryggisaðgerðir. Samgöngusáttmálinn á að ná sátt um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu til framtíðar en stofnun félags um samgöngusáttmála verður hryggjarstykkið í framgangi verkefnanna.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Enn ríkir mikil óvissa um útfærslu framkvæmda, fjármögnunar þeirra og rekstraráætlun liggur ekki fyrir. Ekki hefur verið gert heildstætt umferðarmódel sem tekur tillit til allra samgöngumáta og flæði fólks eins og gera þarf þegar um jafn stórar og kostnaðarsamar framkvæmdir er um að ræða.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Sósíalistaflokks Íslands styður heils hugar mikilvægi þess að byggja upp góða samgönguinnviði og sérstaklega betri almenningssamgöngur. Slíkt er mikilvægt með umhverfissjónarmið að leiðarljósi og til að mæta þörfum þeirra sem treysta á almenningssamgöngur. Jafnframt er mikilvægt er að þær séu sniðnar út frá stétta- og félagsstöðu þeirra sem á þær treysta. Þar sem hér er um að ræða félag (Betri samgöngur ohf.) sem hefur m.a. það verkefni að innheimta flýti- og umferðargjöld á höfuðborgarsvæðinu, verði ákveðið með lögum að leggja slík gjöld á og hámarka virði landsins að Keldum eða öðru sambærilegu landi, getur fulltrúi sósíalista ekki fallist á þær leiðir sem eru nefndar sem liður í fjármögnun. Bæting samgönguinnviða og sérstaklega almenningssamgangna er gríðarlega mikilvægt samfélagslegt verkefni og ætti að vera greitt fyrir úr sameiginlegum sjóðum okkar. Sökum þess að fjársterkir aðilar hafa verið undanþegnir því að greiða til samfélagsins síðustu árin eða greitt hlutfallslega minna til samfélagsins, hefur skattbyrðin verið færð yfir á tekjulægri hópana. Slíkt má ekki leiða til þess að gjaldtaka fyrir innviðauppbyggingu sé færð yfir á almenning. Fulltrúi sósíalista telur að hlutverk stjórnvalda sé að standa vörð um að sjóðir almennings mæti nauðsynlegri innviðauppbygginu og að hugmyndafræði markaðsvæðingar komist ekki að félagslegum grunnviðum samfélagsins. 

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Hér er á ferðinni nýtt félagaform sem ekki hefur verið reynt áður, þ.e. ohf. í eigu ríkis, sex sveitarfélaga og millistykkinu samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH). Segja má að verið sé að búa til þriðja stjórnsýslustigið með því að formgera félagið með þessum hætti. Ohf. félög ríkissins hafa mörg hver verið algjör martröð fyrir skattgreiðendur eins og t.d. Íslandspóstur, RÚV, Isavia og Nýr Landsspítali. Þessi félög eru svarthol/ríki í ríkinu, sem þingmenn/fjárveitingarvaldið hafa engan aðgang að þó sífellt krefjist félögin meiri og meiri fjármuna frá ríkinu. Ekki þarf að ræða sorgarsögu bs. félaga sveitarfélaganna, t.d. SORPU og Strætó. Það er óskiljanleg ráðstöfun að fjármálaráðherra leggi Keldnalandið inn í félagið en líklega er það lausnargjaldið af hálfu ríkissins svo borgarstjóri myndi samþykkja að skipuleggja landið. Land í þéttbýli er verðlaust land ef það er ekki skipulagt. Sem betur fer fyrir landsmenn alla náðu þingmenn Miðflokksins þeim árangri að á lokametrum samþykktar málsins á Alþingi í vor, að allar fjárhagslegar skuldbindingar ríkissjóðs vegna félagsins þurfi að hljóta staðfestingu í samgönguáætlun, fjármálaáætlun og fjárlögum hvers árs. Ohf-un ríkisins, bs.-væðing sveitarfélaganna og framsal valds kjörinna fulltrúa til landshlutafélaga án lagasetningar um starfsemi þeirra, hræðir svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga um stofnun opinbers hlutafélags um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu, þ.m.t. borgarlínu er lögð fram af meirihlutanum. Uppbygging á samgönguinnviðum er vissulega brýnt verkefni. Í þessu félagi hins vegar verða stjórnendur ekki fulltrúar kjósenda. Nokkra þætti í þessum sáttmála styður Flokkur fólksins ekki. Álagning veggjalda er röng og óttast er að meirihlutinn nýti sér veggjöld til að hamla notkun fjölskyldubílsins og refsa þeim sem kjósa bíl sem aðal ferðamáta. Það eru aðrar leiðir til en að setja á veggjöld. Félag íslenskra bifreiðaeigenda hefur rökstutt vel að lestur á kílómetrastöðu bíls við árlega skoðun sé ódýr kostur ef leggja þarf gjald á akstur. Í sáttmálanum er ekki hugsað til viðkvæmustu hópanna, efnaminna fólks. Áhyggjuefni er að þétting byggðar meðfram borgarlínu þrengi að grænum svæðum borgarinnar þótt finna megi staði sem sannlega mætti þétta. Tillögur að hverfisskipulagi í Breiðholti bera þessu merki en þar á að byggja 3000 íbúðir á kostnað grænna svæða og bílastæða. Bílastæði eiga almennt ekki að fylgja nýjum íbúðum sem dregur úr eftirspurn. Ef sveitarfélög þurfa að gera sáttmála um fjölmörg atriði eiga þau þá ekki frekar að sameinast? En þangað til þarf að tryggja íbúum ríka aðkomu og gefa kjörnum minnihlutafulltrúum kost á að greiða atkvæði í stórum málum.

4.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að beina því til stjórnar Strætó að ráðist verði í tilraunaverkefni með sjálfkeyrandi strætisvagna. Mikil þróun hefur átt sér stað undanfarin ár í slíkri tækni en tæknin mun koma til með að stuðla að stórbættri þjónustu. Verkefnið yrði liður í snjallvæðingu Reykjavíkurborgar. Við útfærslu verkefnisins verði umferðaröryggi haft að leiðarljósi. Ný og hagkvæm tækni getur orðið til þess að stórbæta þjónustu Strætó án mikils tilkostnaðar. 

Greinargerð fylgir tillögunni. R20090016
Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn níu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins að vísa tillögunni frá.
Borgarfulltrúar Sósíalistaflokks Íslands og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Mikil tækifæri eru fyrir almenningssamgöngur að nýta sjálfkeyrandi tækni til að bæta þjónustuna. Borgarstjórn ber að veita leiðsögn í stórum málum og senda skýr skilaboð. Málið hefur ekki verið tekið fyrir í borgarkerfinu og því einboðið að taka það fyrir í borgarstjórn. Rétt er að benda á að borgarstjórn samþykkti 2. október 2018 að beina því til Strætó að auka tíðni ferða. Sú tillaga var samþykkt með 22 atkvæðum og átti breytingin að taka gildi frá 1. janúar 2020. Það hefur ekki orðið að veruleika. Tækniþróun verður ekki innleidd að sjálfu sér. Skipulagsmál eru á hendi borgarinnar og borgin á að beita sér í útfærslu nýrra umferðarlaga í reglugerð sem tóku gildi um síðustu áramót. Við eigum að innleiða tæknina til að bæta þjónustu Strætó, en ekki vísa henni frá.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Í sumar fór af stað samstarfsverkefni Eflu, Reykjavíkurborgar og Strætó um sjálfkeyrandi almenningssamgöngur í Reykjavík. Þar var verkefnið að taka fyrstu skref í að innleiða sjálfakandi almenningsvagna í Reykjavík. Markmið verkefnisins var að skilgreina og undirbúa rannsóknarverkefni þar sem sjálfakandi almenningsvagnar munu aka í Reykjavík og farþegar geta farið inn og út á nokkrum biðstöðvum. Sérstaklega var hugað að því að vagninn nýti sér núverandi innviði borgarinnar þ.e. götur og stíga og þurfi því ekki að ráðast í dýrar innviðaframkvæmdir. Næstu skref eru skipulögð í verkefninu og farið verður í frekara samstarf með samstarfsaðilum. Núna er verið að fara yfir og skilgreina öryggisatriði, nauðsynlega innviði s.s. vegmálun og fjarskipti, tegund ökutækis, leiðarval, tengingar við leiðanet Strætó, hlutverk og ábyrgð mismunandi stofnanna ásamt kostnað. Tillögu þessari um sjálfakandi strætó í Reykjavík er því vísað frá, á grundvelli þessi að verkefnið er þegar í vinnslu.

5.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Lagt er til að Reykjavíkurborg leiti til ríkisins um samvinnu til stuðnings atvinnusköpunar. Verkefnið byggi á því að styðja við nýsköpunarmöguleika þeirra borgarbúa sem eru á atvinnuleysisbótum hjá Vinnumálastofnun. Verkefnið verði hugsað sem stuðningur við þau sem hafa áhuga á að hefja rekstur á grundvelli samvinnufélaga. Markmið verkefnisins byggi á því að þau sem eru atvinnulaus skapi sjálf störf, byggð á þeirra áhugasviði og út frá því sem þau telja þörf á í samfélaginu. Þar gefst þeim tækifæri á að koma fram með nýjar hugmyndir og móta starfsumhverfi sitt í samvinnu við aðra, í stað þess að eingöngu sé hvatt til atvinnuþátttöku innan núverandi fyrirtækja og starfa sem eru til staðar. Vegna atvinnuleysis í kjölfar kórónuveirufaraldursins er nauðsynlegt að skapa störf og lagt er til að þau sem eru án atvinnu og treysta sér til atvinnuþátttöku, verði boðið að skapa sér sín eigin störf á grundvelli samvinnufélaga. Útfærslan byggi á því að tveir eða fleiri þurfi að vera með áætlun um einhverskonar rekstur. Hér er rétt að taka fram heimild ráðherra sem er til staðar í lögum um samvinnufélög, til að heimila frávik frá lágmarksfjölda stofnenda samvinnnufélags. Verkefnið byggi á því að einstaklingar haldi rétti til atvinnuleysisbóta á meðan á verkefninu standi, í allt að tólf mánuði og stuðningur stjórnvalda felist í stuðningi við að koma rekstrinum á koppinn. Lagt er til að í viðræðum við ríkið um slíkt samvinnuverkefni komi Reykjavíkurborg með 20% stofnstyrk í formi fjármagns eða aðstöðu til rekstursins og að lagt verði af stað með að verkefnið nái til 200 einstaklinga. Þessir þættir eru þó umsemjanlegir. Sviðstjóra mannauðs- og starfsumhverfissviðs verði falið að leiða viðræðurnar við ríkið og leita til viðeigandi aðila úr borgarkerfinu eftir atvikum. Niðurstöður verði síðan lagðar fyrir borgarráð.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20090017
Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fjöldi borgarbúa upplifir nú atvinnuleysi og er á atvinnuleysisbótum frá Vinnumálastofnun og þessi tillaga snýr að því að borgin leiti til ríkisins um samvinnu til stuðnings atvinnusköpunar á grundvelli samvinnufélaga. Þar sem atvinnuleysisbætur eru á forræði ríkisins og margir borgarbúar eru nú á atvinnuleysisbótum eru það vonbrigði að meirihuti borgarstjórnar hafi ekki áhuga á að skoða efni tillögunnar frekar. Tillagan fól í sér að leitast yrði við að koma á verkefni sem yrði hugsað sem stuðningur við þau sem hafa áhuga á að hefja rekstur á grundvelli samvinnufélaga. Markmið verkefnisins byggi á því að þau sem eru atvinnulaus skapi sjálf störf, byggð á þeirra áhugasviði og út frá því sem þau telja þörf á í samfélaginu. Þar gæfist þeim tækifæri á að koma fram með nýjar hugmyndir og móta starfsumhverfi sitt í samvinnu við aðra og Reykjavíkurborg hefði þar geta komið með aðstöðu eða annað til að styðja við verkefnið. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Nú þegar hafa verið samþykktar fjölmargar vinnumarkaðsaðgerðir til viðspyrnu við COVID-19. Margar þeirra eru vissulega í samstarfi við ríkið og stofnanir þess. Útfærsla þessarar tillögu er hins vegar illa á forræði borgarinnar þar sem allir þeir þræðir, ef að vel á að takast, eru í höndum Alþingis og stofnana ríkisins og fela í sér margvíslegar breytingar á þeirri umgjörð sem t.d. samvinnufélög starfa eftir. Tillögunni er því vísað frá.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Tillaga Flokks fólksins um að umhverfis- og skipulagsráð/svið Reykjavíkurborgar kynni sér starfshætti hjá fleiri þjóðum t.d. Þjóðverjum og Dönum sem hafa náð góðum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir í opinberu húsnæði. Loftgæðamál vegna rakaskemmda og annarra ástæðna er stórt vandamál í sumum skólum og vinnustöðum Reykjavíkurborgar og fer stækkandi. Afleiðingar hafa verið skelfilegar fyrir marga. Víða í þeim löndum sem náð hafa hvað mestum árangri í aðgerðum sem varða rakaskemmdir, t.d. í Þýskalandi, eru notuð sérhæfð loftefnahreinsitæki til að bæta loftgæði tímabundið í skólastofum og öðrum rýmum sem eru loftmenguð og þegar verið er að vinna í menguðum rýmum við hlið rýma sem eru í notkun. Einnig eru þau notuð til þess að bæta líðan nemenda og starfsfólks og gefa sérfræðingum meira svigrúm til að meta skemmdir og grípa til aðgerða. Þá eru menguðu rýmin innsigluð og aðskilin frá öðrum rýmum og loftefnahreinsitækin notuð til aðstoðar. Fulltrúi Flokks fólksins leggur til að Reykjavíkurborg skoði þessar aðferðir með opnum hug. Eftir því sem fulltrúi Flokks fólksins hefur kynnt sér þá var þessi leið farin í einum af skólum borgarinnar og tókst vel til. Loftefnahreinsitækin virkuðu og ættu því að virka samhliða viðgerðum í öðrum skólum Reykjavíkurborgar til að bæta líðan og minnka kostnað.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20090018
Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Markmiðið hjá Flokki fólksins er að borgaryfirvöld leiti allra leiða til að finna bestu og hagkvæmustu leiðirnar í aðgerðum gegn myglu og raka í skólabyggingum. Margir hafa glímt við veikindi vegna vanrækslu meirihlutans á að viðhalda byggingum með eðlilegum hætti. Rökin fyrir frávísun eru að sérfræðingar borgarinnar viti þetta allt. Engu að síður kemur fram í framsögu formanns umhverfis- og heilbrigðisráðs að sérfræðingar borgarinnar og fyrirtæki sem þeir skipta við þegar upp koma myglu- og rakaskemmdir noti aðrar aðferðir en þessa sem Flokkur fólksins er að leggja til að heilbrigðisyfirvöld skoði enda hafi þær gefið árangur. Tillögunni er því vísað frá. Halda mætti að tillagan ógni einhverjum eða einhverju. Hefur eitthvað fyrirtæki sem borgin skiptir við setið eitt að kjötkötlunum í aðgerðum gegn raka- og myglu? Ef talið er að fyrirtæki sé ógnað með tillögu Flokks fólksins má spyrja hvort það fyrirtæki teljist óháður aðili til að meta myglu- og rakaskemmdir þar sem að það í framhaldi fær vinnu við hönnun mannvirkja sem þarf að breyta vegna rakaskemmda. Eftir situr að umhverfis- og heilbrigðisyfirvöld virðast ekki spennt fyrir að nota öflugan viðurkenndan loftefnahreinsibúnaður til að bæta ástand á meðan beðið er eftir viðgerðum og meðan á viðgerðum stendur.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi gagnbókun:

Borgarfulltrúi Flokks fólksins staðhæfir í bókun sinni að formaður umhverfis- og heilbrigðisráðs hafi sagt í ræðu að „... sérfræðingar borgarinnar og fyrirtæki sem þeir skipta við þegar upp koma myglu- og rakaskemmdir noti aðrar aðferðir en þessa sem Flokkur fólksins er að leggja til að heilbrigðisyfirvöld skoði enda hafi þær gefið árangur.“ Þetta er rangt með farið. Formaðurinn sagði hins vegar réttilega að notast er við staðlaðar aðferðir á landsvísu og að þessar samræmdu leiðbeiningar byggi á leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar. Eins kom fram í sömu ræðu að séu notuð einhvers konar tæki þá sé það gert í samráði og samtali fagfólks á sviðinu sem eru í þéttu samstarfi við kollega sína víða um heim og hefur sérþekkingu á loftgæðamálum. Formaðurinn margumtalaði í bókun Flokks fólksins talaði hins vegar aldrei um nein fyrirtæki sem borgin skiptir við í störfum sínum enda átti slík umræða ekkert erindi í umfjöllun um þessa tillögu.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi gagnbókun:

Það er ekki rétt það sem meirihlutinn segir í gagnbókun sinni, en hún nefndi sérstaklega í andsvari sínu hvað aðferðir sérfræðingar borgarinnar notast við og það var ekki sú aðferð sem lögð er til að sérfræðingar borgarinnar kynni sér heldur eitthvað allt annað

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Ef raki eða leki kemur upp er fyrst og fremst farið í það að uppræta orsökina, fjarlægja mögulega skemmt byggingarefni og þrífa. Á vef Reykjavíkur eru gefnar leiðbeiningar um hvernig fólk og fyrirtæki geti skoðað húsnæði sitt bæði fyrir rekstraraðila og einkaaðila sem og heimili. Um þetta verklag gilda samræmdar leiðbeiningar Umhverfisstofnunar á landsvísu sem eru byggðar á leiðbeiningum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar. Hjá Heilbrigðiseftirlitinu starfar fagfólk í m.a. loftgæðamálum og er það í nánu samstarfi við erlendar eftirlitsstofnanir og kollega sína og sinnir símenntun sinni og störfum af alúð og fagmennsku. Tillaga Flokks fólksins bætir engu við það verklag eða störf þeirra sem sinna loftgæðamálum í borginni. Henni er því vísað frá.

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Miðflokksins:

Borgarstjórn samþykkir að Reykjavíkurborg leggi tafarlaust út fyrir 20% af kostnaði fjarskiptasjóðs vegna ljósleiðaravæðingar dreifbýlis í Reykjavík svo heimili í dreifbýli fái þessa grunnþjónustu fyrir veturinn. Nú þegar hafa 80% af framlagi sjóðsins verið greidd samkvæmt samningi aðila sem undirritaður var 12. júní sl. Lagt er til að inntaksgjald sem húseigendur/íbúar þurfa að greiða eða eiga að greiða til fjarskiptafélagsins að upphæð 100.000 kr. sem inntaksgjald verði greitt af borginni svo gætt sé jafnræðis milli íbúa í allri Reykjavík.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20090019
Samþykkt með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins að vísa tillögunni frá.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Tillaga mín um kostnaðarþátttöku Reykjavíkurborgar vegna ljósleiðaravæðingar dreifbýlis var vísað frá í borgarstjórn. Þar með birtist skýrt að borgarstjóri og meirihlutinn líta ekki á alla íbúa Reykjavíkur sömu augum. Ekki er gætt jafnræðis því að gert er ráð fyrir að inntaksgjald sem íbúar þurfa að greiða er 100.000 kr. pr. inntak. Aðrir Reykvíkingar hafa ekki þurft að inna þetta gjald af hendi. Tillagan gekk líka út á flýtingu verkefnisins því framlög fjarskiptasjóðs falla niður 1. apríl 2021 sé verkinu ekki lokið innan þess tíma. Það var fyrst í gær, þann 31. ágúst að borgarfulltrúi Miðflokksins fékk þær upplýsingar að búið væri að bjóða verkið út og að tilboð hafi verið opnuð þann 24. ágúst. Það er stórundarlegt að það hafi ekki verið kynnt á fundi borgarráðs 27. ágúst. Míla ehf bauð tæpar 56 milljónir í verkið sem er einungis 56,55% af kostnaðaráætlun. Borgarstjóri gat ekki svarað því á fundinum hvort greiðslur frá fjarskiptasjóði falli niður því samkvæmt samningnum þarf Reykjavíkurborg og íbúar að greiða fyrstu 65,5 milljónina sem er lágmarksframlag íbúa/sveitarfélaga (500.000 kr.) pr. inntak. Kjalnesingum er óskað innilega til hamingju með að nú sér fljótt fyrir endann á þessari harmsögu sem ljósleiðaravæðing þessa svæðis hefur verið.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Á undanförnum árum hefur ljósleiðarinn náð inn á öll heimili í þéttbýli í Reykjavík. Næsta verkefni sem er að ljósleiðaravæða dreifbýli Reykjavíkur er nú þegar hafið. Þar fellur kostnaður bæði á ríkið, borgina og þá kaupendur sem fá ljósleiðara. Hluti kaupanda er afar misjafn eftir landsvæðum og getur numið allt að hálfri milljón króna. Hlutur kaupenda í dreifbýli í Reykjavík nemur 100.000 kr. sem er augljóslega mun lægra en í flestum sveitarfélögum.

Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi sósíalista styður efni tillögunnar sem er tvíþætt.

8.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Lagt er til að tryggt verði að börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum á vegum þeirra, frístundaheimila eða félagsmiðstöðva, þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Tillagan lýtur að verkefnum og viðburðum sem grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða börnum að taka þátt gegn greiðslu þátttökugjalds, til að mynda afþreying utanhúss, heimsóknir á ýmsa staði og styttri ferðalög. Samkvæmt gögnum hjá skóla- og frístundasviði sitja börn í reykvískum grunnskólum ekki við sama borð þegar kemur að þátttöku í hinum ýmsu verkefnum/viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Fulltrúi Flokks fólksins ræddi þetta ítarlega á borgarstjórnarfundi þann 16. júní sl. þegar hann lagði fram tillögu um að gerð yrði jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega áhrif á börnin. Fjölskyldur í efnahagsþrengingum geta ekki veitt börnum sínum það sama og betur stæðir foreldrar. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki að bitna á börnum. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun samrýmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði. Í aðalnámsskrá grunnskóla segir að ekki megi mismuna börnum eftir félagslegum aðstæðum þeirra. Skólabörn eiga að sitja við sama borð þegar kemur að skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20090020
Frestað.

9.    Lagt til að Ellen Jacqueline Calmon taki sæti í innkaupa- og framkvæmdaráði í stað Elínar Oddnýjar Sigurðardóttur. Jafnframt er lagt til að Aron Leví Beck og Dóra Magnúsdóttir taki sæti sem varamenn í ráðinu í stað Pawels Bartoszeks og Þorkels Heiðarssonar. R20030171
Samþykkt.

10.    Lagt til að Þórarinn Snorri Sigurgeirsson taki sæti sem varamaður í íbúaráði Breiðholts í stað Þórarins Alvars Þórarinssonar. R18060093
Samþykkt.

11.    Lagt til að Kristín Soffía Jónsdóttir taki sæti í íbúaráði Laugardals í stað Sabine Leskopf. R18060099
Samþykkt.

12.    Samþykkt að taka kosningu í stjórn Lífeyrissjóðs starfsmanna Reykjavíkurborgar á dagskrá. Lagt er til að Jórunn Pála Jónasdóttir taki sæti sem varamaður í stjórninni í stað Katrínar Atladóttur. R18060110
Samþykkt.

13.    Samþykkt að taka á dagskrá beiðni Vilborgar Guðrúnar Sigurðardóttur varaborgarfulltrúa um lausn frá störfum sínum í borgarstjórn til loka kjörtímabilsins. R20090021
Samþykkt.

-    Kl. 20.05 víkur Katrín Atladóttir af fundinum og Jórunn Pála Jónasdóttir tekur sæti. 

14.    Lögð fram fundargerð borgarráðs frá frá 25. og 27. júní, 2. og 23. júlí og 13., 20. og 27. ágúst. R20010001
1. liður fundargerðarinnar frá 20. ágúst; deiliskipulag fyrir Furugerði 23 er samþykktur með 12 atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn 10 atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands situr hjá við afgreiðslu málsins. R20080076
18. liður fundargerðarinnar frá 27. ágúst; viðaukar við fjárhagsáætlun 2020 er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R20010161
19. liður frá 27. ágúst; viðauki við fjárhagsáætlun 2020 vegna COVID-19 er samþykktur.
Borgarfulltrúi Vinstri grænna situr hjá við afgreiðslu málsins. R20010161
20. liður frá 27. ágúst; viðauki við fjárhagsáætlun 2020, fjárfestingaráætlun, vegna COVID-19 er samþykktur.R20010161
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 1. lið fundargerðar borgarráðs frá 20. ágúst:

Nú á að fara aftur í auglýsingu á þessari lóð vegna mistaka hjá Reykjavíkurborg sem er frábært fyrir þá aðila sem eru mótfallnir skipulaginu og þarf að byrja allt ferlið upp á nýtt. Íbúaráði Háaleitis- og Bústaðahverfis lýsti yfir miklum áhyggjum vegna málsins. Íbúar eru hræddir um skemmdir á húsum sínum þegar farið verður að sprengja fyrir bílakjallara því grunnt er niður á klöpp. Einnig hafa íbúar miklar áhyggjur af skorti á bílastæðum og hljóðvist. Íbúaráðið benti á fleiri þætti, s.s að takmarkað pláss er fyrir gangstéttir og að þröngt verði um bíla. Aðal áhyggjur íbúaráðsins eru þó þær að byggingamagnið á reitnum er allt of mikið og stendur til að margfalda það miðað við fyrirliggjandi aðalskipulag. Íbúaráðið bendir á að „í B-hluta aðalskipulags 2010-2030 kemur fram um þennan reit: „ÍB33 Gerði-vestur. Svæðið er að mestu fullbyggt og fastmótað. Möguleiki er á lítilsháttar þéttingu íbúðarbyggðar (4-6 íbúðir) við Furugerði, næst Bústaðavegi (Gróðrarstöðin Grænahlíð).“ Núverandi aðalskipulag gerir ráð fyrir 4-6 íbúðum, en í breytingartillögun er því haldið fram að heimild sé fyrir 49 íbúðum og að stefnt sé að byggingu 32 íbúða.“ Þessi tillaga kemur algjörlega aftan að íbúum á þessu svæði og vinnubrögð borgarinnar eru forkastanleg.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 18.-20. lið fundargerðar borgarráðs frá 27. ágúst:

Fulltrúi Flokks fólksins óskaði eftir að viðaukar undir lið 12 yrðu bornir upp í sitthvoru lagi þar sem sumir snúa beint að þörfum fólks en aðrir að skreytingum torga. Ekki var orðið við því. Fulltrúi Flokks fólksins styður þá þætti sem lúta að hækkun fjárheimilda til skóla- og velferðarmála. Grynnka verður á biðlistum barna til fagaðila með því að fjölga fagaðilum. Til að skapa atvinnu ætti að hækka fjárheimildir til fasteignaverkefna eins og viðhald skóla og annarra fasteignaverkefna sem snúa beint að grunnþáttum og þjónustu við borgarbúa. Meirihlutinn vill hins vegar setja framkvæmdir við Þingholt-torg efst á lista og hækkar fjárfestingaheimildina um 20 m.kr. Afkoma borgarinnar hefur versnað stórum vegna COVID eins og nýafgreiddur sex mánaða árshlutareikningur sýnir. Rekstur ýmissa málaflokka hefur heldur ekki gengið nógu vel m.a. sem snýr að grunnþjónustu í samfélaginu. Borgin var engan vegin nógu vel undirbúin til að mæta áfalli sem COVID-19 er alla vega ekki þegar horft er til skuldastöðunnar. Afkoma dótturfyrirtækja hefur auk þess versnað. Auknar lántökur eru um 11 milljarðar og hafa skuldir aukist um 33 milljarða á sl. 6 mánuðum. Af hverju hefur borgin ekki notað góðæri til að greiða niður skuldir í stað þess að auka þær?

15.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 28. ágúst, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 25. júní, menninga-, íþrótta- og tómstundaráðs frá 15. og 22. júní og 24. ágúst, skipulags- og samgönguráðs frá 1. júlí og 12. og 26. ágúst, skóla- og frístundaráðs frá 23. og 25. júní og 18. og 25. ágúst, umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 24. júní og 19. ágúst og velferðarráðs frá 24. júní og 19. ágúst. R20010285
8. liður fundargerðar forsætisnefndar; breyting á viðauki 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna fullnaðarafgreiðslna skipulags- og samgönguráðs er vísað til síðari umræðu.     R18060129

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 13. lið í fundargerð umhverfis- og heilbrigðisráðs frá 19. ágúst:

Á fundi umhverfis- og heilbrigðisráðs var lögð fram skýrsla: Tillögur að aðgerðum gegn matarsóun, dags. júní 2020. Ýmsar framtíðartillögur voru kynntar og tiltekið á hvers ábyrgð þær myndu vera, stjórnvalda eða atvinnulífsins. Framtíðartillögurnar hefði mátt greina nánar, hvað væri t.d. á könnu sveitarfélaganna. Skólar eru á ábyrgð sveitarafélaga og þegar kemur að baráttunni við „matarsóun“ þá er ótal margt sem skólar og börnin vilja gera. Í ljós hefur komið í rannsóknum að mun meiri matarsóun er í íslenskum grunnskólum en í nágrannalöndunum. Virkja ætti öll leik- og grunnskólabörn með því t.d. að bjóða þeim að skammta sér sjálf þegar þau hafa aldur og þroska til og skrá niður hvað og hversu mikið þau leifa. Í sumum skólum er þetta í boði og sumir skólar eru einnig Grænfánaskólar. Flokkur fólksins lagði fram tillögu í borgarstjórn 2018 að borgin myndi beita sér m.a. fjárhagslega fyrir því að allir skóla í Reykjavík yrðu Grænfánaskólar og hvernig stemma megi stigu við matarsóun. Tillögunni var hafnað. Í framtíðartillögum skýrslunar sem hér um ræðir hefði mátt leggja meiri áherslu á þátt barnanna. Börn hafa almennt séð afar gaman að verkefnum af þessu tagi þar sem þau sjá mælanlegan ávinning af því sem þau gera.

Fundi slitið kl. 20:50

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Kristín Soffía Jónsdóttir

Örn Þórðarson    Dóra Björt Guðjónsdóttir