B O R G A R S T J Ó R N

Ár 2020, þriðjudaginn 15. september, var haldinn fundur í Borgarstjórn Reykjavíkur. Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 14.00. Voru þá komnir til fundar, auk borgarstjóra, eftirtaldir borgarfulltrúar og varaborgarfulltrúar: Pawel Bartoszek, Heiða Björg Hilmisdóttir, Líf Magneudóttir, Diljá Ámundadóttir Zoëga, Dóra Björt Guðjónsdóttir, Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, Sabine Leskopf, Ragna Sigurðardóttir, Ellen Jacqueline Calmon, Hjálmar Sveinsson, Skúli Helgason, Eyþór Laxdal Arnalds, Marta Guðjónsdóttir, Valgerður Sigurðardóttir, Egill Þór Jónsson, Jórunn Pála Jónasdóttir, Örn Þórðarson og Ólafur Kr. Guðmundsson.
Eftirtaldir borgarfulltrúar tóku sæti á fundinum með fjarfundarbúnaði með vísan til heimilda í auglýsingu nr. 780/2020 um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra skv. VI. bráðabirgðaákvæðis sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011: Hildur Björnsdóttir,  
Fundarritari var Helga Björk Laxdal.

Þetta gerðist:

1.    Fram fara óundirbúnar fyrirspurnir. 
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins beina fyrirspurn til borgarstjóra um fjármál Reykjavíkurborgar .
Borgarfulltrúi Sósíalistaflokks Íslands beinir fyrirspurn til borgarstjóra um fjárhagsaðstoð.
Borgarfulltrúi Miðflokksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um mat eldri borgara.
Borgarfulltrúi Flokks fólksins beinir fyrirspurn til borgarstjóra um skipulags- og samgöngumál.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins beina fyrirspurn til borgarstjóra um samgöngumál. R20080128

2.    Fram fer umræða um stöðu barna í Reykjavík. R20090130

-    Kl. 1550 víkur Sanna Magdalena Mörtudóttir af fundinum og Daníel Örn Arnarson tekur sæti. 
-    Kl. 17.00 víkur Skúli Helgason af fundinum og tekur sæti í gegnum fjarfundabúnað. 

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Staða barna í borginni er almennt góð og samkvæmt nýlegri samanburðarrannsókn á 150 borgum er Reykjavík í 7. sæti yfir þær borgir þar sem best er búið að barnafjölskyldum. En bregðast þarf við niðurstöðum skýrslu UNICEF um að þrátt fyrir góðan aðbúnað barna almennt sé þörf á að efla félagsfærni. Reykjavíkurborg hefur þegar sett þau mál í forgang með nýrri menntastefnu og eflingu stuðningsþjónustu, þar sem félagsfærni og sjálfsefling eru meðal helstu áhersluatriða. Samstarf skóla og frístundasviðs og velferðarsviðs um snögg og samþætt viðbrögð þegar börn þurfa aukinn stuðning er mikilvægt og miklar vonir bundnar við fjölmörg verkefni á því sviði sem nú eru í þróun eða hafin. Vel hefur gengið að halda úti reglulegu skóla- og frístundastarfi þrátt fyrir COVID-19 heimsfaraldurinn og engin röskun er á starfinu um þessar mundir né í íþrótta og tómstundastarfi. Við erum að efla barnavernd og fagfólk sviðanna vinnur á vettvangi úti í hverfunum vandað og gott starf með börnum með fjölbreyttar þarfir.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Staða flestra barna í Reykjavík er góð. Engu að síður eru ótal hlutir sem mættu vera betri þegar kemur að þjónustu við börn í Reykjavík. Það er miður að ekki skuli vera búið að bæta þar úr en sami meirihluti í skóla- og velferðarmálum hefur ríkt lengi. Meirihlutinn hefur hafnað fjölda tillagna Flokks fólksins sem lúta að bættri þjónustu við börn og foreldra þeirra.  Fyrst skal nefna biðlistavandann. Mánaða ef ekki áralanga bið er eftir sálfræðiþjónustu, þjónustu talmeinafræðinga og fleira fagfólks. Enn eru reglur um frístundakort stífar og ósveigjanlegar sem bitnar á fjölda barna. Þjónusta við börn hefur verið skert sbr. ákvörðun um að stytta opnunartíma leikskóla. Á hverju hausti eru alltaf einhver börn sem ekki geta hafið leikskólagöngu eða dvöl í frístund vegna þess að ekki tekst að ráða í stöðugildi. Reykjavík er eftirbátur annarra sveitarfélaga með margt t.d. gjald skólamáltíða. Biðlistar eru í sérskóla. Inntökuskilyrði í sérskóla eru of ströng. Börn hafa verið látin stunda nám í raka- og mygluskemmdum skóla með alvarlegum afleiðingum.  Margir foreldrar barna með ADHD og aðrar raskanir og fötlun upplifa uppgjöf gagnvart „velferðarkerfinu“. Hér er bara brot af því sem verður að laga. Síðast en ekki síst, þá vantar sárlega  fleiri bjargráð fyrir tvítyngd börn.

3.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins: 

Borgarstjórn samþykkir að gera breytingu á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar sem heimilar íbúðabyggð í Keldnalandinu annars vegar og Örfirisey hins vegar þar sem m.a. verður gert ráð fyrir uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir almennan markað. Samhliða þessu verði farið í að skipuleggja atvinnulóðir á Keldum. Umhverfis- og skipulagssviði verði falið að skila nánari útfærslu til skipulags- og samgönguráðs í síðasta lagi í lok október.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20090131

-    Kl. 18.58 víkur Hildur Björnsdóttir af fundinum og Ragnhildur Alda María Vilhjálmsdóttir tekur sæti.

Tillagan er felld með þrettán atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Vinstri grænna gegn tíu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Vinstrimeirihlutinn í Reykjavík gengur út frá því að byggðar verði 4.000 íbúðir á flugvallarsvæðinu. Ekkert bendir hins vegar til þess að það verði mögulegt á næstu 10-20 árum, þar sem annað flugvallarstæði liggur ekki fyrir. Aukinheldur mun niðursveiflan vegna kórónuveirunnar gera fjármögnun nýs flugvallar enn ólíklegri. Með öðrum orðum er stórt gat í húsnæðisáætlun borgarinnar upp á 4.000 íbúðir. Augljós valkostur hefði verið að leyfa byggingu hagkvæms húsnæðis í Örfirisey í Vesturbænum annars vegar og á Keldnalandinu hins vegar. Ein forsenda samgöngusáttmálans er skipulagning Keldnalandsins. Jafnframt er lagt upp með það í Lífskjarasamningunum og tillögur ríkisins er varðar húsnæðisuppbyggingu fyrir alla að Keldnalandið verði skipulagt fyrir íbúðabyggð og það hefjist á árinu 2019. Ætli vinstrimeirihlutinn í Reykjavík sér að standa við skuldbindingar sínar verður ekki undan þessu loforði vikist en gera má ráð fyrir að sáttmálinn verði að engu verði Keldnalandið ekki skipulagt í tæka tíð. Þá má jafnframt benda á að meirihlutinn mun fara gegn verkalýðshreyfingunni í landinu hefjist þeir ekki handa og það sem fyrst.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Síðustu fimm ár er mesta uppbyggingartímabil nýrra íbúða í Reykjavík í áratugi. Samtals hefur hafist bygging á tæplega 5700 nýjum íbúðum frá ársbyrjun 2015. Öll sú húsnæðisuppbygging stendur á grunni Aðalskipulags Reykjavíkur 2010-2030. Á þessu kjörtímabili hafa verið skipulögð svæði fyrir þúsundir íbúða og eru þar efst á blaði lágtekjuhópar. Staðan núna er sú að næstum 20 af hverjum 100 íbúðum í Reykjavík eru fyrir lágtekjuhópa og er það langhæsta hlutfall á landinu. Hvorki Örfirisey né Keldur ganga hins vegar upp sem uppbyggingarsvæði fyrir íbúðir í allra nánustu framtíð heldur verður húsnæðisuppbygging að haldast í hendur við uppbyggingu öflugra almenningssamgangna - rétt eins og fyrirhugað er í Aðalskipulagi Reykjavíkur.

4.    Fram fer umræða um stöðu menningarmála í ljósi COVID-19 R20090132

-    Kl. 19. 45 tekur Þórdís Lóa Þórhallsdóttir sæti á fundinum og Diljá Ámundadóttir Zoëga víkur sæti.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Samkomubann vegna COVID-19 hefur bitnað sérstaklega illa á tónlistar og sviðslistafólki. Margir eru nú atvinnulausir en búa við skertan rétt til bóta vegna tekjumissis. Reiknimódel Vinnumálastofnunar og Ríkisskattstjóra vegna viðmiðunartekna listamanna henta illa vegna lágra tekna, sveiflu í innkomu og fjölbreytileika starfa. Við teljum brýnt að ráð bót á þessu. Starf tónlistar- og sviðslistafólks er mjög verðmætt fyrir samfélagið.

5.    Fram fer umræða um friðlýsingu í Álfsnesi og við Þerneyjarsund til verndar miðaldahafnar í Reykjavík. R20090133

Borgarfulltrúi Miðflokksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er stórfurðulegt að taka svo afdrifarík ákvörðun að úthluta Björgun framkvæmdaleyfi í Álfsnesi á þeim tíma þegar bæði borgarstjórn og skipulags- og samgönguráð var í sumarleyfi. Framkvæmdaleyfið var afgreitt á embættisafgreiðslufundi skipulagsfulltrúa 3. júlí sl. þvert ofan í áform um friðunarferli Minjastofnunar. Það verður að teljast skjót málsmeðferð því umsókn Björgunar um framkvæmdaleyfið var lögð fram 1. júlí. Endanlegt leyfi eftir umsögn skipulagsfulltrúa var afgreitt 10. júlí. Í 2. mgr. 23. gr. laga um minjavernd segir: „Minjastofnun Íslands ákveður að undangenginni vettvangskönnun hvort frekari rannsóknar er þörf, hvort gera skuli tillögu um friðlýsingu eða hvort fornleifarnar megi víkja og þá með hvaða skilmálum. Óheimilt er að veita leyfi til framkvæmda fyrr en ákvörðun Minjastofnunar Íslands liggur fyrir.“ Utan þessa alvarlegu afgreiðslu og óafturkræfa tjóns sem hefur hlotist af, virðast ekki aðeins verið þverbrotin lög heldur er gengið freklega gegn forneifafræðinni sem fræðigrein. Hér er einnig verið að kasta rýrð á arfleifð dr. Kristjáns Eldjárns, fyrrverandi forseta Íslands og þjóðminjavarðar. Kristján lagði sig í framkróka við að rannsaka þetta svæði og rita um þessar minjar og rannsóknir sínar sérstaka fræðigrein. Staðurinn er einnig talinn vera upphaf þess kaupstaðar sem borgin nú er. Hér er um óslitna minjaheild að ræða sem ekki er hægt að rjúfa.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Það er sjálfsagt að styðja friðlýsingu. Rök Minjastofnunar eru sterk. Minjastofnun vísar til almannahagsmuna sem hlýtur að hafa meira gildi en sérhagsmunir. Meðal raka meirihlutans fyrir að hafna tillögu Minjastofnunar Íslands um friðlýsingu menningar- og búsetulandslags við Þerneyjarsund er að „vegstæði Sundabrautar sé undir“.  Lega Sundabrautar hefur ekki einu sinni verið ákveðin. Fleirum finnst þessi rök borgarstjóra ekki halda og er það sjálfur forstöðumaður Minjastofnunar. Í viðtali við forstöðumann Minjastofnunar kemur fram að friðlýsing skerði ekki vegstæði Sundabrautar og að varðveisla minja og lagning brautarinnar geti vel farið saman. Það hlýtur að vera hægt að skoða aðrar leiðir, vissulega þarf Björgun stað en fleiri staðir koma án efa til greina ef út í það væri farið. Meirihlutinn í borgarstjórn á að vera þakklátur nákvæmri vinnu Minjastofnunar. Okkur ber öllum að huga að minjum landsins og vill fulltrúi Flokks fólksins leggja áherslu á að borgarmeirihlutinn eigi gott samstarf við Minjastofnun í þessu máli sem öðru. Það hefur komið skýrt fram að það megi ekki veita heimild til neins konar framkvæmda á svæðinu án þess að ákvörðun Minjastofnunar Íslands um minjarnar liggi þar fyrir.

6.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Sósíalistaflokks Íslands:

Lagt er til að breytingar verði gerðar á reglum um fjárhagsaðstoð frá Reykjavíkurborg til að mæta þeim sem geta ekki leitað annað vegna framfærslu á meðan á námi stendur. Samkvæmt 15. gr. reglnanna njóta einstaklingar sem stunda nám sem er lánshæft hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna, ekki réttar til fjárhagsaðstoðar. Þó að nám sé lánshæft hjá sjóðnum, sem nú heitir Menntasjóður námsmanna, þá þýðir slíkt ekki að allt námsfólk geti uppfyllt skilyrðin til að teljast lánshæft hjá sjóðnum. Skilyrðin fela í sér að mega ekki vera í vanskilum við sjóðinn og ábyrgðar á námslán er krafist ef lánþegi telst ekki tryggur. Ef viðkomandi er á vanskilaskrá, bú viðkomandi í gjaldþrotameðferð eða ef sjóðurinn hefur þurft að afskrifa lán gagnvart einstaklingnum, þá telst hann ekki tryggur. Námsmenn þurfa að vera í fullu lánshæfu námi til að geta fengið námslán. Lágmarksárangur á önn eru 22 ECTS-einingar eða ígildi þeirra. Fullt nám telst vera 30-ECTS einingar á hverju misseri/önn. Hér skal tekið fram að námsfólk getur sótt um aukið svigrúm í námi ef ákveðnar kringumstæður koma í veg fyrir lágmarksnámsframvindu á tiltekinni önn. Þá er í mesta lagi hægt að fá 22 ECTS-einingar skráðar. Þess ber að geta að framfærsla lækkar eftir því sem námsframvinda er minni í einingum talið. Í ljósi alls ofangreinds er lagt til að breytingar verði gerðar á reglum Reykjavíkurborgar um fjárhagsaðstoð til að mæta því námsfólki sem getur ekki uppfyllt kröfur lánastofnana um lánshæfi. Einnig er lagt til að Reykjavíkurborg skori á ríkið að gera umbætur í þeim efnum svo að nám verði aðgengilegt öllum, óháð fjárhag og getu um námsframvindu. Við eigum öll að geta verið þátttakendur í samfélaginu, á okkar eigin hraða.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20090134
Samþykkt að vísa tillögunni til meðferðar velferðarráðs.
Borgarfulltrúi Miðflokksins situr hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Það er ekki hlutverk Reykjavíkurborgar að sjá um framfærslu námsmanna í lánshæfu námi. Skorað er á ríkið að gera úrbætur með tilliti til framfærslu námsmanna í háskólanámi og grípa þannig þá nema sem lenda milli skips og bryggju í háskólanámi. Jafnframt er bent á að fjárhagsaðstoð Reykjavíkurborgar felur í sér hærri framfærslu en grunnframfærsla MSN gerir ráð fyrir til námsmanna í eigin- eða leiguhúsnæði. Brugðist var við áliti úrskurðarnefndar velferðarmála í málaflokknum með endurskoðun á framkvæmd reglna um fjárhagsaðstoð til námsmanna en eðlilegt er að sú endurskoðun haldi áfram. Tillögunni er því vísað til velferðarráðs. Jafnframt ítrekar meirihluti borgarstjórnar að endurskoðun reglnanna megi ekki fela í sér að Reykjavíkurborg taki að sér hlutverk sem er nú á hendi ríkisins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Fulltrúi Flokks fólksins styður þessa tillögu enda hefur verið með sambærilega tillögu í velferðarráði 2019 þar sem henni var synjað. Lagt var til að reglum um fjárhagsaðstoð verði breytt þannig að námsmenn sem stunda lánshæft nám en sem eru ekki lánshæfir geti engu að síður sótt um fjárhagsaðstoð. Í tillögunni var vísað í greinargerð umboðsmanns borgarbúa í máli nemanda sem synjað var um fjárhagsaðstoð á þeim rökum einum að hann stundaði nám sem er lánshæft. Viðkomandi, af öðrum ástæðum, uppfyllti ekki skilyrði til að eiga rétt á námsláni, segir í greinargerð umboðsmannsins og vill borgarfulltrúi Flokks fólksins taka undir það sem stendur þar: „Fyrir liggur að möguleikar viðkomandi á því að stunda nám í þeim mæli sem reglur Lánasjóðs íslenskra námsmanna áskilja eru verulega takmarkaðir og fær viðkomandi því ekki notið þeirra réttinda sem í því felast að stunda lánshæft nám.“ Það segir sig sjálft að þar með eru möguleikar viðkomandi til náms verulega takamarkaðir ef nokkrir. Í þessu tilfelli hlýtur viðkomandi að þurfa að eiga þess kost að sækja um fjárhagsaðstoð og fara í sérstakt mat. Nám leiðir til aukinna möguleika á að fá vinnu, aukins stöðugleika og hærri launa en ella.

7.    Lögð fram svohljóðandi tillaga borgarfulltrúa Flokks fólksins:

Lagt er til að tryggt verði að börn í grunnskólum í Reykjavík njóti sambærilegra tækifæra til þátttöku í verkefnum og viðburðum á vegum þeirra, frístundaheimila eða félagsmiðstöðva, þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Tillagan lýtur að verkefnum og viðburðum sem grunnskólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar borgarinnar bjóða börnum að taka þátt gegn greiðslu þátttökugjalds, til að mynda afþreying utanhúss, heimsóknir á ýmsa staði og styttri ferðalög. Samkvæmt gögnum hjá skóla- og frístundasviði sitja börn í reykvískum grunnskólum ekki við sama borð þegar kemur að þátttöku í hinum ýmsu verkefnum/viðburðum þegar greiða þarf sérstakt þátttökugjald. Fulltrúi Flokks fólksins ræddi þetta ítarlega á borgarstjórnarfundi þann 16. júní sl. þegar hann lagði fram tillögu um að gerð yrði jafnréttisskimun í grunnskólum, frístundaheimilum og félagsmiðstöðvum. Efnahagsþrengingar foreldra hafa iðulega áhrif á börnin. Fjölskyldur í efnahagsþrengingum geta ekki veitt börnum sínum það sama og betur stæðir foreldrar. Skuldir og fjárhagsstaða foreldra eiga ekki að bitna á börnum. Í mannréttindastefnu Reykjavíkurborgar segir að allir skuli njóta jafns réttar. Mismunun samrýmist ekki 2. gr. Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem kveður á um jafnræði. Í aðalnámsskrá grunnskóla segir að ekki megi mismuna börnum eftir félagslegum aðstæðum þeirra. Skólabörn eiga að sitja við sama borð þegar kemur að skólatengdum verkefnum, frístund og félagsstarfi á vegum Reykjavíkurborgar.

Greinargerð fylgir tillögunni. R20090135

Umræða um tillöguna fer fram samhliða umræðu um stöðu barna í Reykjavík sbr. 2.lið. 

Tillögunni er vísað frá með tólf atkvæðum borgarfulltrúa Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna gegn ellefu atkvæðum borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokksins og Flokks fólksins.

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun:

Á vorönn lagði fulltrúi Flokks fólksins fram sambærilega tillögu þ.e. að gerð yrði jafnréttisskimun á hvort börn eru að fá sambærileg tækifæri til þátttöku í skóla- og frístundatengdum viðburðum. Þeirri tillögu var líka vísað frá. Öll vitum við að börn sitja ekki við sama borð í þessum máli og er ekki hægt að sætta sig við það. Nóg er að fögrum fyrirheitum hjá þessum meirihluta en minna um aðgerðir og framkvæmdir í þágu barna í borginni. Skóla- og frístundasvið hefur viðurkennt að fyrirkomulag þar sem foreldrar eru krafðir sérstakrar greiðslu vegna viðburða eða ferða sé með ýmsum hætti en málin eru sögð óljós. Einhver óreiða er í þessum málum. Þegar upp koma erfið mál þar sem foreldrar hafa ekki ráð á að greiða aukagjöld er reynt að leysa þau með einhverjum reddingum. Oft þarf að leita í einhverja varasjóði.  Hvernig skyldi þeim foreldrum og þeim börnum líða í þessum sporum? Fullnægjandi greiningar liggja ekki fyrir hvernig þessu er háttað. Sagt er að skólinn greiði en að fjármögnun milli skóla geti verið mismunandi. Hvað er átt við? Svo eiga fjáraflanir að redda málum. Það á ekki að þurfa að treysta á slíkt. Skóla- og velferðarkerfi borgarinnar treystir um og of á að aðrir bjargi málum, hjálparsamtök og safnanir.

Borgarfulltrúar Samfylkingarinnar, Viðreisnar, Pírata og Vinstri grænna leggja fram svohljóðandi bókun:

Greiningar liggja nú þegar fyrir inn á skóla- og frístundasviði um heildarkostnað við ýmiskonar viðburði innan skólanna í borginni. Fyrirkomulag slíkra ferða er með ýmsum hætti. Til dæmis greiðir skólinn í nær öllum tilfellum stóran hluta kostnaðar ýmissa viðburða þótt fjármögnun milli skóla geti verið mismunandi. Í vissum tilfellum er um samstarf foreldra, nemenda og skóla, með fjáröflunum ef um er að ræða ferðalög með gistingu. Þá er rétt að taka fram að innheimta skal gjöld af foreldrum vegna gistiferða samkvæmt leiðbeiningum mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Ef upp koma einstök tilfelli þar sem fjárhagur foreldra er hamlandi þáttur, þá er alltaf leitast við að leysa málin farsællega.

8.    Umræðu um samgöngusáttmála er frestað. R20090136

9.    Lagðar fram fundargerðir borgarráðs frá 3. og 10. september. R20010001
5. liður fundargerðarinnar frá 10. september; viðaukar við fjárhagsáætlun Reykjavíkurborgar 2020 er samþykktur.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R20010161


Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 9. lið fundargerðar borgarráðs frá 10. september:

Kynning um fyrirhugaðan Arnarnesveg hefur átt sér stað tvisvar en kynningargögnum er haldið leyndum. Farið var yfir 3 útfærslur, allar óásættanlegar, þar sem allar kljúfa vesturhlíð Vatnsendahvarfs og eyðileggja þar með verðmætt útivistarsvæði sem og breyta algjörlega ásýnd og notagildi hæðarinnar til frambúðar. Útfærsla 1 var sögð ekki koma til greina, væri ekki gerleg og auk þess gríðarlega kostnaðarsöm. Útfærsla 2 er sú sem skipulagsyfirvöld sjarmera greinilega fyrir og leið 3 með mislægu gatnamótin er draumaútfærsla bæjarstjórnar Kópavogs. Allt er þetta byggt á löngu úreltu umhverfismati. Sú staðreynd að skipulagsyfirvöld borgarinnar ætla að taka þátt í þessari eyðileggingu er sérkennilegt því nú er kynnt nýtt skipulag með Vetrargarði einmitt þar sem vegurinn á að liggja. Það þarf að gera nýtt umhverfismat. Annað er ekki siðferðislega verjandi. Augljóslega er hægt að tengja frá Arnarnesvegi-Rjúpnavegi í Kópavogi yfir í Tónahvarf.  Hægt væri að leggja afrein frá Breiðholtsbraut  inn í Víkurhvarf-Urðarhvarf í Kópavogi.  Einnig stækka hringtorgin á þessum leiðum og að gera stórt og greiðfært hringtorg á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Vatnsendahvarfs.  Vegurinn yrði þá að mestu innan bæjarmarka Kópavogs. Sjálf Vatnsendahæðin gæfi  þá möguleika á að nýtast enn frekar sem útivistarsvæði. Þar myndi Vetrargarðurinn njóta sín og svæðið vera einstakt og eftirsótt af öllum.

10.    Samþykkt að taka kosningu varamanns í stjórn SORPU á dagskrá,. Lagt er til að Kristín Soffía Jónsdóttir taki sæti sem varamaður í stjórninni í stað Sabine Leskopf. R18060111
Samþykkt.
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands, Miðflokks og Flokks fólksins sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins leggja fram svohljóðandi bókun:

Þrátt fyrir að Reykjavíkurborg er með meirihluta í byggðasamlögum á borð við SORPU bs og Strætó bs er Reykjavík með eingöngu einn fulltrúa. Fjórir stjórnmálaflokkar sem eru með 11 borgarfulltrúa hafa enga aðkomu að stjórnum þessara félaga. Til að bíta höfuðið af skömminni er meirihlutinn líka með varamanninn. Rekstur þessara byggðasamlaga er með þessu alfarið á ábyrgð meirihlutans. Gaja er nýlegt dæmi um gríðarlega framúrkeyrslu og skort á áætlunum.

11.    Lagðar fram fundargerðir forsætisnefndar frá 11. september, mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráðs frá 27. ágúst, skipulags- og samgönguráðs frá 2. og 9. september, skóla- og frístundaráðs frá 8. september og velferðarráðs frá 2. september. 
2. liður fundargerðar forsætisnefndar; breyting á viðauka 1.1 við samþykkt um stjórn Reykjavíkurborgar og fundarsköp borgarstjórnar vegna fullnaðarafgreiðslna skipulags- og samgönguráðs er tekinn til síðari umræðu.
Samþykkt. R18060129
Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins, Sósíalistaflokks Íslands og Miðflokksins sitja hjá við afgreiðslu málsins. R20010285

Borgarfulltrúi Flokks fólksins leggur fram svohljóðandi bókun undir 10. lið í fundargerð skóla- og frístundaráðs og 3. og 9. lið í fundargerð velferðarráðs. 

Fulltrúi Flokks fólksins mótmælir öllum gjaldskrárhækkunum á þessum tímapunkti  í samfélaginu enda aðstæður afar óvenjulegar. Fulltrúi Flokks fólksins styður að sjálfsögðu hækkun greiðslna til stuðningsfjölskyldna. Með öðrum gjaldskrárhækkunum er höggvið í þá sem minnst mega sín á sama tíma og segir í bréfi borgarstjóra „það er varhugavert við þær aðstæður sem nú eru uppi að fara í niðurskurð  til þess að koma rekstri borgarinnar í jafnvægi til skamms tíma“.
Hér er um mótsögn að ræða.  Seilst er í vasa þeirra viðkvæmustu. Á sama tíma mælist Samband íslenskra sveitarfélaga til þess með yfirlýsingu dags. 27. mars 2020 að sveitarfélög haldi aftur af sér við gjaldskrárhækkanir í ljósi þess samdráttar sem blasir við í þjóðfélaginu. Fundargerð skólaráðs. Stytting opnunartíma leikskóla kemur sér  illa fyrir marga. Ástæðan fyrir styttingu er að það þarf að sótthreinsa skólana. Þetta er gert þrátt fyrir að nýlegt jafnréttismat sýni neikvæð áhrif sem breytingin hefur á jafnrétti kynjanna. Skertur opnunartími mun ekki síður koma niður á foreldrum með takmarkaðan sveigjanleika í starfi og þeirra sem koma langa leiðir til að sækja vinnu. Hægt hefði verið að finna aðrar lausnir t.d. að ráða inn fólk eftir lokun sem annaðist sótthreinsun.

Fundi slitið kl. 21:44

Forseti og skrifarar gengu frá fundargerð.

Pawel Bartoszek

Örn Þórðarson    Hjálmar Sveinsson