mánudagur, 19. apríl 2021

Veitur munu endurnýja vatns- og fráveitu á Vesturgötu, frá Stýrimannastíg að Bræðraborgarstíg og þaðan niður á Hlésgötu í sumar. Götum verður lokað fyrir bílaumferð meðan á framkvæmdum stendur.

  • Kort yfir framkvæmdir á Vesturgötu og nágrenni

 

Verkefnið er mikilvægt þar sem skólp hefur flætt í kjallara nokkurra húsa í götunni í mikilli úrkomu og leysingum. Fráveitukerfið verður stækkað og lagnir aðgreindar fyrir regnvatn og skólp.  Kaldavatnslagnirnar eru einnig komnar á tíma en þær eru flestar frá árinu 1925. 

Áætlað er að hefja vinnu við 1. áfanga (Vesturgata) 15. apríl með verklokum í enda júlí. Annar áfangi sem liggur yfir leikvöllinn Litla völl hefst 1. júlí og stendur til 31. ágúst. Þriðji áfangi (yfir Mýrargötu) hefst 1. september og lýkur 31. október. Gert er ráð fyrir að öllum frágangi verði lokið fyrir 15. nóvember 2021. 

Þegar framkvæmdum á Vesturgötu lýkur hefst annar áfangi sem liggur yfir leikvöllinn við Litla Völl. Kappkostað verður að framkvæmdir þar taki sem stystan tíma. Leikvöllurinn verður endurbyggður í núverandi mynd.  

Núverandi skólplögn í Vesturgötu liggur grunnt þar sem mjög stutt er niður á klöpp undir götunni og ekki hefur verið fleygað fyrir lögnunum á sínum tíma. Því þarf að fleyga úr klöppinni töluvert langa leið, eða um það bil frá Vesturgötu 38 og 39 og fram yfir gatnamót Vesturgötu og Bræðraborgarstígs. Sú framkvæmd mun hafa áhrif á hljóðvist og einnig er líklegt íbúar verði varir við titring.  

Fleygunin verður unnin í samræmi við reglur um vinnutíma. Á íbúðasvæðum er heimilt að vinna á virkum dögum milli kl. 08:00 og 18:00. Aðra daga er fleygun ekki heimil.  

Þess verður gætt að aðgengi fyrir gangandi vegfarendur á Vesturgötu verði sem best á meðan á framkvæmdunum stendur.