miðvikudagur, 14. apríl 2021

Sundlaugar opna á ný og fleiri geta sótt söfnin í borginni þegar ný reglugerð um tilslakanir á samkomutakmörkunum tekur gildi á miðnætti.

  • Sundlaugin í Árbæ. Myndin sýnir fólk í lauginni og heitum pottum. Mynd: Reykjavíkurborg.

Ný reglugerð um tilslakanir á samkomutakmörkunum og í skólastarfi tekur gildi á miðnætti og gildir frá og með 15. apríl til 5. maí að öllu óbreyttu.

Helstu breytingar eru þær að fjöldatakmörk miðast nú við 20 manns. Þá geta 50 manns geta verið í sóttvarnarhólfum í skólum og 100 manns geta mætt á viðburði. Börn fædd 2015 og síðar teljast ekki með á sundstöðum og íþróttastöðum en telja hins vegar t.a.m. á leiksýningum. Börn fædd 2005 og yngri þurfa ekki að ganga með grímur.

Söfn geta tekið á móti 20 manns í hvert sóttvarnarhólf í stað tíu áður.

Sundlaugar munu opna á ný og geta tekið við helmingi af leyfilegum gestafjölda. Börn fædd 2015 og síðar teljast ekki með.

Í grunn- og leikskólum verða eins metra fjarlægðartakmörk í stað tveggja metra reglunnar sem auðveldar skólastarf til muna.

Í félagstarfi aldraðra mega 20 manns koma saman og einnig verður hægt að bjóða upp á hádegismat í félagsmiðstöðvum borgarinnar.

Gætum vel að sóttvörnum og munum eftir tveggja metra reglunni þar sem hún á við og notum grímurnar rétt.