fimmtudagur, 15. apríl 2021

Reykjavíkurborg hefur ákveðið að vera skjólborg fyrir Samson Haileselassie Habte sem er landflótta blaðamaður frá Erítreu. Þetta er fjórði einstaklingurinn sem Reykjavíkurborg tekur á móti.

  • Samson Haileselassie Habte sem er landflótta blaðamaður frá Erítreu

Reykjavíkurborg gerðist aðili að ICORN (International Cities of Refuge Network) árið 2010. ICORN eru samtök borga víðs vegar um heim sem bjóða listamönnum, rithöfundum, talsmönnum mannréttinda, blaðamönnum og tónlistarmönnum sem eru í hættu í heimalandi sínu, skjól.

Samtökin vilja með þessu móti tryggja málfrelsi, verja lýðræðisleg gildi og sýna samstöðu þvert á landamæri. Frá árinu 2006 hafa fleiri en 75 borgir víðsvegar um heiminn gerst aðilar að tengslaneti ICORN eða skjólborgarverkefninu og 200 einstaklingar hafa fengið skjól.

Samson Haileselassie Habte er fæddur árið 1985 í Erítreu og starfaði sem blaðamaður í Erítreu þangað til að hann flúði landið árið 2013. Samkvæmt lista samtakanna Reporters Without Borders eða Fréttamenn án landamæra er Erítrea meðal þeirra þjóða heims þar sem fjölmiðlafrelsi er hvað minnst. Í alþjóðlegum skýrslum hefur verið vakin athygli á gífurlegum mannréttindabrotum í landinu, en stjórnvöld í Erítreu stjórna alfarið hvaða upplýsingar komast í fjölmiðla og þeir sem birta ósamþykkt efni eiga á hættu að fá fangelsisdóm.

Í janúar 2013 gerðu uppreisnarmenn misheppnaða tilraun til að taka yfir upplýsingaráðuneyti landsins. Í kjölfarið voru margir blaðamenn handteknir vegna gruns um að vera hliðhollir uppreisnarmönnunum. Samson var handtekinn og var í haldi lögreglu í fimm daga og hlaut afar slæma meðferð. Eftir að hann var látinn laus ákvað hann að yfirgefa landið og flúði til Úganda þar sem hann hlaut alþjóðlega vernd árið 2016.

Samson hélt áfram að starfa sem blaðamaður í Úganda og hefur m.a. vakið athygli á mannréttindabrotum í heimalandi sínu. Þrátt fyrir að hafa yfirgefið landið óttast Samson enn um öryggi sitt, en honum hafa ítrekað borist hótanir. Í ljósi framangreinds leitaði Samson til ICORN samtakanna eftir aðstoð. Í lok árs 2019 bauð Reykjavíkurborg Samson skjól til tveggja ára. Samson kom til Reykjavíkur um miðjan mars 2021.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa heldur utan um verkefnið ásamt starfshópi skipuðum af borgarstjóra.